Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 214
213
hugmyndafræðinnar í stað þess að gagnrýna hana. Enginn lætur sig varða
hlutlægt inntak hennar á meðan hún þjónar sínu hlutverki.
Virkni hugmyndafræðinnar verður þó augljóslega sífellt óhlut bundnari.
Grunsemdir fyrri menningargagnrýnenda reynast á rökum reistar: í heimi
þar sem forréttindi menntunar og fjötrun vitundarinnar meina fjöldanum
hvort eð er aðgang að ósvikinni reynslu andlegra sköpunarverka, er það
síður hið sérstæða hugmyndafræðilega inntak sem er mikilvægt en að
eitthvað sé yfirleitt til staðar, sem fylli upp í tóm holaðrar vitundarinnar og
beini sjónum frá illa geymdu leyndarmálinu. Með tilliti til þjóðfélagslegrar
virkni skiptir væntanlega mun minna máli hvaða tilteknu hugmyndafræði-
legu skoðun kvikmyndin heldur að áhorfendum en að þeir hafi að lokinni
sýningu áhuga á nafni leikaranna og hjúskaparstöðu þeirra. Flatneskjuleg
hugtök eins og afþreying eiga hér betur við en uppskrúfaðar skýringar á því
hvers vegna einn rithöfundur er fulltrúi smáborgara en annar stór borgara.
Menningin er ekki aðeins orðin hugmyndafræðileg sem ímynd huglægt
útfærðra birtingarmynda hins hlutlæga anda, heldur er hún það einnig á
öllu sviði einkalífsins. Falskt mikilvægi og sjálfstæði einkalífsins dylur þá
staðreynd að einkalífið hjarir aðeins sem fylgihlutur hins þjóð félagslega
ferlis. Lífið umbreytist í hugmyndafræði hlutgervingarinnar, svo að segja í
nágrímu. Þetta er ástæða þess að gagnrýnin ætti alla jafna síður að grafast
fyrir um þá sérhagsmuni sem rekja má ákveðin menningar fyrirbæri til,
en að greina með hvaða hætti heildarhneigð samfélagsins kemur fram í
þessum fyrirbærum, því þar birtast hagsmunirnir sem mestu ráða. Þannig
verður menningargagnrýnin að greiningu á ásjónu samfélagsins. Því
ákafar sem heildin sviptir af sér því sem bundið er náttúrunni, verður sam-
félagslega mótuð, síuð og bundin „vitund“, þeim mun ræki legar verður
þessi heild að „menningu“. Hið efnislega framleiðsluferli sem slíkt hefur
þjónað lífsbaráttunni en tekur að lokum á sig mynd þess sem það hefur
alltaf verið, allt frá uppruna þess í vöruskiptum og falskri vitund beggja
samningsaðila um hvorn annan: hugmyndafræði. Á hinn bóginn verður
vitundin jafnframt í sívaxandi mæli að farvegi fyrir sviptingar heildarinnar.
Hugmyndafræði þýðir núorðið: samfélagið sem birtingarmynd. Henni
er miðlað af heild sem byggir á drottnunarvaldi sérhagsmunanna, en hún
verður þó ekki smættuð skilyrðislaust niður í þessa sérhagsmuni og þannig
eru öll brot hennar í vissum skilningi jafn nálægt miðpunktinum.
Valkostirnir eru að vefengja menninguna í heild utan frá undir yfirhug-
takinu hugmyndafræði eða tefla gegn menningunni þeim birtingar-
MENNINGARGAGNRÝNI OG SAMFÉLAG