Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Síða 11
10
á framsetningu (e. representation) á kynlífi og kynferði – hvað telst „klám“,
hvað „erótík“ o.s.frv. – eru langt frá því að vera algildar eða „eðlilegar“,
enda deila aðrir menningarheimar alls ekki þessum hugmyndum.
Hin sérstaka, vestræna sýn á kynlíf og kynferði, sem klámhugtak-
ið sprettur upp úr, á sér sögu sem fræðimenn hafa jafnan rakið aftur til
Grikklands og Rómarveldis til forna.2 Í þessari grein mun ég fylgja þessari
rannsóknarhefð. Ætlunin er ekki að reyna að skilgreina klám heldur að
líta á þrjú söguleg skref sem ég tel marka tímamót í þróun hins vestræna
klámhugtaks; tvö þessara skrefa eru vel þekkt en það þriðja hefur verið
lítt rannsakað. út frá þeim má leggja fram kenningu um hvaða sögulegu
skilyrði það voru sem kölluðu á mótun hugtaksins, og þannig rekja sögu
þess lengra aftur en allajafna er gert – þ.e. til hins forna grísk-rómverska
menningarheims.
Ars erotica
Klámhugtakið á reyndar eina afar augljósa tengingu við heim Forn-Grikkja
og Rómverja.3 Alþjóðlega hugtakið yfir klám, pornographia, er samansett
úr grísku orðunum pornê, „hóra“ og graphia, „rit, teikning“.4 Orðið birt-
ist sjálft hvergi í forngrískum heimildum en er byggt á raunverulegu
grísku orði, pornographos, sem bregður einu sinni fyrir í hinu furðulega riti
Fræðimenn að kvöldverði (Deipnosophistai) eftir Aþenæos frá Nákratis (2/3
öld f. Kr.), og aldrei meir.5 Aþenæos notar pornographos, að því er virðist,
2 Þessi rannsóknarhefð hefst með útgáfu Michels Foucault á 1. bindi verks síns
Sögu kynferðisins (Histoire de la sexualité, 1: La volonté de savoir, París: Gallimard,
1976) og inniheldur rit svo sem John Boswell, Christianity, Social Tolerance, and
Homosexuality: Gay People in Western Europe from the Beginning of the Christian Era
to the Fourteenth Century, Chicago og London: The University of Chicago Press,
1980; David Halperin, One Hundred Years of Homosexuality and Other Essays on Greek
Love, New York og London: Routledge, 1990; Louis Crompton, Homosexuality and
Civilization, Cambridge, Mass. og London: Harvard University Press, 2003.
3 Umfangsmesta umræða um þessi tengsl innan klassískra fræða er greinasafnið
Pornography and Representation in Greece & Rome, ritstj. Amy Richlin, Oxford: Ox-
ford University Press, 1992, en Richlin og meðhöfundar eru að ýmsu leyti á öðrum
slóðum en greinarhöfundur í sinni umfjöllun; þau nota afar víða skilgreiningu á
klámi þar sem klám og hvers kyns framsetning á kvenlíkamanum verða allt að því
sami hluturinn. Sjá Amy Richlin, „introduction“, sama rit, bls. xi–xxiii.
4 Gríska sögnin graphein þýðir einfaldlega að draga línur og nær því bæði yfir teikn-
ingar og skrift.
5 Rit Aþenæosar er gríðarlöng samræða þar sem karlkyns matargestir í endalausri
veislu ræða um allt milli himins og jarðar á lærðan hátt (tilvitnanir í skáld og heim-
spekinga fljúga milli gesta), en sérstök áhersla er lögð á umræður um vændiskonur
ÞORSTEiNN viLHJÁLMSSON