Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Side 17
16
inni klám: Opinskátt kynferðislegt efni sem þykir skammarlegt á opin-
berum vettvangi og kallar á aðgengisstýringu af hálfu yfirvalda, í fullkom-
inni andstöðu við ástand mála í hinni fornu Pompeii og í Grikklandi og
Róm til forna almennt.25 Leynisafnið í Napolí fellur því vel að hugmynd-
um Foucault í Sögu kynferðisins: Hinir nákvæmt flokkuðu, földu munir í
Leynisafninu í Napolí, sem aðeins útvöldum var leyft að skoða, eru afurðir
hins vestræna, nútímalega scientia sexualis, en í þeirra upprunalega umhverfi
tákna þeir afstöðu fornaldar til kynferðislegrar tjáningar án sérflokkunar
og blygðunar, ars erotica.
Þannig er hægt að segja að það hafi verið utanaðkomandi hópar, hvort
sem það voru kristnir menn eins og Klemens eða 18. aldar menn við upp-
gröftinn á Pompeii, sem bjuggu til klámið sem skammarheiti yfir listmuni
úr framandi heimi. Þegar menningarlega afmarkaður skilningur utan-
aðkomandi hópsins á kynlífi, kynferði og framsetningu komst í tæri við
annan, gjörsamlega framandi skilning varð til þörfin fyrir róttæka aðgrein-
ingu, fordæmingu, sérflokkun og aðgangstakmarkanir. Þetta býr til nýjan,
fordæmdan flokk sem 18. aldar menn enduðu á að kalla nýju en þó forn-
aldarlegu orði, pornographia. Þetta heiti öðlaðist svo yfirfærða merkingu,
hætti að ná eingöngu yfir forna muni og fór að ná yfir það sem voru taldir
sambærilegir munir innan nútímalegs samfélags; á endanum yfirskyggðu
þeir munina úr Pompeii þegar kom að skírskotunum orðsins pornographia.
Þannig tengist klámhugtakið og kristnin sterkum böndum og það er freist-
andi að álykta að klám sé afurð ákveðinnar hugmyndafræðilegrar baráttu
milli trúarskoðana: Kristnir menn búa með fordæmingu sinni á heiðinni
myndlist til flokk klámsins, eins og sést í þeim tveimur skrefum sem ég hef
dregið fram í sögunni.
Þó er möguleiki að hægt sé að leita dýpra að uppruna hugmynda okkar
um klám. Klemens kórónar fordæmingu sína á fornri myndlist á því að
tala um „kynlífsstellingar Fílænisar“ og rambar þar á einu tegund kyn-
ferðislegrar framsetningar sem var jafn fordæmd af heiðnum mönnum
og kristnum í fornöld. Dreifing, efnistök og siðspillandi áhrif Fílænisar
voru fyrirlitin af menningarlegri elítu – bæði kristinni og heiðinni – sem
eitthvað sem væri skammarlegt bæði að framleiða og að neyta; í heimi þar
25 Walter Kendrick, The Secret Museum, bls. 1–18; 33–49. Í dag er talið að það hafi
aðeins verið eitt hóruhús í Pompeii; sjá Mary Beard, Pompeii: The Life of a Roman
Town, London: Profile Books, 2008, bls. 233–240. Sjá þó gagnrýni Lindu Williams
á það mikilvægi sem Kendrick ljær Pompeii fyrir sögu klámsins í Hard Core, bls.
11–16.
ÞORSTEiNN viLHJÁLMSSON