Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Síða 22
21
Forna lesendur grunaði greinilega að kynlífshjálparbækurnar væru ekki
raunverulega samdar af konum frá kynferðislegum jöðrum hins gríska
heims. Ekki ber þó að taka kvæðin tvö of alvarlega. Bæði eru húmorísk
og skrifuð þannig að þau staðfesta sekt Fílænisar með því að þykjast hafna
henni.39 Í Díoskúrídesi kallar hún sig filaidêmôn, nýyrði sem virðist þýða
„sú sem elskar hófsemi“, en hljómar grunsamlega mikið eins og samblanda
af nafni Fílænisar og eignarfalli fleirtölu orðsins dêmos, „alþjóð“: Þ.e.
„Fílænis, allra eign“, sem kallast á við orðið „almannaeign“ (gr. dêmôdês) í
hinu kvæðinu.
Fleira verður ekki grafið upp um hinn raunverulega höfund bókarinnar
sem var kennd við Fílænis. Um hvað fjallaði þá sú bók nákvæmlega? Þótt
hið almenna þema sé nokkuð skýrt, þá er erfiðara að komast að því hvaða
angar kynlífsins voru teknir til umfjöllunar; Díoskúrídes segir það eitt að
þar hafi mátt finna „hluti andstyggilega konum“.
Kvennarýmum spillt
Eftirheimildir um Fílænis gefa ákveðnar vísbendingar um hvað það var í
bók hennar sem taldist „andstyggilegt konum“. Í ljóði Æskhríons segist
Fílænis ekki hafa verið „lauslát með mönnum“, sem opnar á spurninguna
með hverjum hún hafi þá verið lauslát. Á 1. öld e. Kr. birtast heimildir þar
sem Fílænis er tengd við eða sögð vera tríbaða (lat. og gr. tribas, ft. triba-
des). Tríbaða var algengasta orðið yfir konur sem sváfu hjá konum allt fram
á 19. öld, þegar orðið lesbía tók við.40 Í ljóði eftir rómverska dónaskáldið
Martialis (1. öld e. Kr.) er Fílænis tríbaða sjálf:41
39 Holt N. Parker, „Love’s Body Anatomized“, bls. 109, nmgr. 4.
40 Um tríböðuna í fornöld og á miðöldum, sjá Þorstein vilhjálmsson, „The Tribadic
Tradition: The Reception of an Ancient Discourse on Female Homosexuality“,
MA-ritgerð, Háskólinn í Bristol, 2015. Sótt 11. október 2016 af [http://hdl.handle.
net/1946/23126. Um ris orðsins lesbía, sjá Marie-Jo Bonnet, „Sappho, or the
importance of Culture in the Language of Love. Tribade, Lesbienne, Homosexuelle“,
Queerly Phrased. Language, Gender and Sexuality, ritstj. Anna Livia og Kira Hall,
Oxford og New York: Oxford University Press, 1997, bls. 147–166 og David M.
Halperin, „The First Homosexuality?“, How to Do the History of Homosexuality,
ritstj. David M. Halperin, Chicago og London: University of Chicago Press, 2002,
bls. 48–80, hér bls. 48–54.
41 Það hefur verið tilhneiging í þeirri litlu fræðimennsku sem til er um Fílænis að
taka Fílænis Martialisar sem aðra en kynlífshjálparbókarhöfundinn. Sjá Elizabeth
D. Harvey, „ventriloquizing Sappho, or the Lesbian Muse“, Re–Reading Sappho:
Reception and Transmission, ritstj. Ellen Greene, Berkley; Los Angeles: University
of California Press, 1996, bls. 79–104, hér bls. 89, nmgr. 24; ian Michael Plant,
ÞRJú SKREF Í ÁTT Að TiLURð KLÁMSiNS