Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Blaðsíða 30
29
fóstureyðinga og kom þannig inn á svið fornrar læknisfræði; bók Fílænisar
dró dám af sagnaritum Heródótosar og Þúkýdídesar; báðar tóku sér pláss
innan bókmenntageira sem gerðu ríkt tilkall til menningarlegs auðmagns
og sannleiksgildis. Ef kvenkyns nöfn höfundanna voru tekin gild, þá braut
þetta bersýnilega gegn hugmyndum fornaldar um stöðu kvenna, þar sem
konum var ekki ætlað að afla sér þekkingar handan við þekkingu karl-
manna, síst af öllu um kynlíf.
Ofangreint á við kynlífshjálparbækurnar almennt, en skýrir ekki hvers
vegna Fílænis var tekin svo sérstaklega fyrir af fornum höfundum. Þetta
gæti skýrst af vísbendingum um að bók Fílænisar hafi innihaldið umfjöllun
um tríbadisma – þ.e. kynlíf þar sem kona tekur að sér kynhlutverk gerand-
ans, hlutverk karlmannsins. Þetta fjarlægði karlmanninn úr sinni valdastöðu
sem var byggð á fyrrnefndu kynhlutverki; ef konur gátu sinnt því í stað karla
opnaðist hið forna kynjakerfi upp á gátt. Rými sem áður voru, fyrir fornald-
arkarlmönnum, kynlaus í eðli sínu – svo sem kvennarýmið í fornum húsum
– urðu allt í einu að hættusvæði, eins og Fals-Lúkíanos málar eftirminnilega
upp. Þar tekur Fílænis sér ekki aðeins yfirburðastöðu yfir karlkyns lesendum
hvað varðar þekkingu á kynlífi heldur setur sig jafnfætis þeim hvað varðar
kynhlutverk. Þetta er ógn við feðraveldissamfélag fornaldar.
Sömuleiðis óttuðust menn að kynlífshjálparbækur, og sérstaklega bók
Fílænisar, gætu leitt til ofgnóttar, óhófs og stjórnleysis í kynlífi. Sérstaklega
gat þetta spillt hinu ritúalska rými samdrykkjunnar fornu þar sem ríktu
óskrifaðar reglur um rétta kynferðislega hegðun, sem gestirnir voru taldir
geta brotið undir áhrifum Fílænisar. Karlmennirnir gætu farið að veita
hvor öðrum þá kynferðislegu greiða sem þrælar áttu að sjá um – svo sem
munnmök – og jafnvel þótt þeir héldu sig við þrælana gat Fílænis kennt
þeim sömu þrælum atferli sem braut gegn hinu siðlega og hóflega. Undir
áhrifum Fílænisar átti stéttasamfélagið á hættu að jafnast út: Kynhlutverk
hins frjálsborna karlmanns (hlutverk gerandans) ruglaðist saman við kyn-
hlutverk þrælsins (hlutverk þiggjandans). Hvort sem Fílænis komst inn
í kvennarýmin eða í karlarýmið samdrykkjuna, þá var áhættan sú að hin
réttu kynferðislegu hlutverk spilltust og snerust upp í andhverfu sína.
Þannig má segja að hinar fornu kynlífshjálparbækur hafi verið for-
dæmdar sökum þess að þær dreifðu þekkingu á kynlífi á kerfisbundinn
hátt úr yfirburðastöðu fræðimannsins (og það kvenkyns fræðimanns) til
viðkvæmra hópa (kvenna, þræla, ungra manna í samdrykkju). Þetta braut
í bága við venjur í fornöld um miðlun kynferðislegrar þekkingar, sem átti
ÞRJú SKREF Í ÁTT Að TiLURð KLÁMSiNS