Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Page 36
35
sem markmið.“7 Þessi vel þekkta skylda sem gengur undir heitinu lög-
málið um virðingu fyrir persónunni snertir það efni sem fjallað er um
hér því segja má að mjög algengt sé að tengja saman hlutgervingu og
vanvirðingu eins og nánar verður vikið að hér á eftir. Þegar breytni snýr að
manneskjum er mikilvægt, samkvæmt þessu boði, að virða hið sjálfstæða
takmark sem sérhver persóna hefur með lífi sínu en í því felst að nota hana
aldrei einvörðungu sem tæki heldur taka tillit til vilja og markmiða hennar.
Meginhugmyndir lögmálsins má því segja að séu tvær: Að ráðskast ekki
með aðra án samþykkis þeirra og að styrkja þá í að ná markmiðum sínum.
Í þessu birtist hugsjón Kants um manneskjuna, en hún er sú að maðurinn
sé skynsemisvera í ríki markmiða og hafi sjálfræði til að breyta samkvæmt
algildu lögmáli sem hann sjálfur hefur sett sér.8 útskýring á þessum vel-
þekktu hugmyndum Kants hefur vægi fyrir umfjöllunina sem hér fer á eftir
þar sem verður staldrað við túlkun heimspekingsins Mörthu C. Nussbaum
á mismunandi merkingu hlutgervingarhugtaksins og í framhaldi af því
skoðuð umræða Kants um hlutgervingu í kynlífi.
Nussbaum segir hlutgervingarhugtakið vera orðið hluti af daglegri
orðræðu í samfélaginu, oft sé það notað til að gagnrýna auglýsingar, kvik-
myndir og annað sjónrænt efni en einnig til að tjá efasemdir í garð meintra
viðhorfa og ætlana fólks. Hugtakið sé alla jafna notað í neikvæðri merk-
ingu, einkum þegar hún tengist kynferðislegum þáttum, og beinist að tali,
hugsun eða breytni sem talin er siðferðilega og samfélagslega gagnrýnis-
verð. Kynferðislega hlutgervingu af hálfu karla gagnvart konum segir hún
gjarna túlkaða með þeim hætti að hún sé einn meginvandinn í lífi kvenna
og andstaða gegn henni jafnframt það sem femínísk pólitík snúist um.9
Mikilvæg áhrif á þessa stöðu mála rekur Nussbaum til orðræðu róttækra
femínista á 9. áratug síðustu aldar, ekki síst til Catharine MacKinnon og
samstarfsfélaga hennar sem héldu því fram að það væri óumflýjanleg stað-
reynd að allar konur væru kynferðislega hlutgerðar í lífi sínu sem konur.
Það illa og óæskilega við hlutgervingu í augum MacKinnons er virðing-
arleysið sem í henni felst en hlutgerðum konum er meinað að lifa sam-
7 immanúel Kant, Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni, Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag, þýðing eftir Guðmund Heiðar Frímannsson, 2003, [1783], bls.
153.
8 vilhjálmur Árnason, Farsælt líf, réttlátt samfélag – kenningar í siðfræði, Reykjavík:
Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar, 2008, bls. 100–102.
9 Martha C. Nussbaum, „Objectification“, Sex and Social Justice, Oxford og New
York: Oxford University Press, 1999, bls. 213–239, hér bls. 213–214.
HLUTGERviNG, KYNLÍF OG KLÁM