Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Síða 39
38
greiningar og hún átti sig hreinlega ekki á hver sé boðskapur verksins í
heild.16 Þá dregur hún þá ályktun að þótt ekkert textadæmanna sé sneytt
siðferðilegrum álitamálum og enginn textanna muni líklega falla öllum í
geð séu nokkur dæmi sérlega ógeðfelld. Þar nefnir hún sérstaklega texta
James Hankinson á meðan hún segir um hin hlutgervingardæmin að þau
séu ýmist skaðlaus eða ánægjuleg. Um að minnsta kosti eitt dæmanna,
jafnvel fleiri, segir hún hægt að nota orðin „unaðslegur þáttur í kynlífi“
(e. a wonderful part of sexual life)! Samantekin telur hún að dæmin sýni mis-
munandi víddir og merkingu hlutgervingar og undirstriki nauðsyn þess að
steypa ekki öllum birtingarmyndum hennar í sama mót. Takist manni að
forðast það blasi við að allar tegundir hlutgervingar séu ekki jafn slæmar.
Mikilvægast sé að vega og meta samhengið og kringumstæðurnar þar sem
hlutgerving eigi sér stað.17 Lítum næst á lista þann er Nussbaum setur
fram um það hvaða þættir geti falist í hlutgervingu, þ.e. að meðhöndla
persónu eins og um hlut væri að ræða:
Í fyrsta lagi hegðun þar sem hlutgerandinn (e. objectifier) lítur á við-
fangið (e. object) sem verkfæri sem nýta má til að ná eigin markmið-
um.
Í öðru lagi er framkoman á þá leið að viðfanginu er neitað um sjálf-
ræði og sjálfsákvörðunarrétt.
Í þriðja lagi einkennist hegðunin af því að litið er á viðfangið sem
viljalaust og/eða getulaust.
Í fjórða lagi lítur hlutgerandinn svo á að hægt sé að skipta viðfang-
inu út fyrir eitthvað annað, sömu tegundar.
Í fimmta lagi kemur hlutgerandinn svo fram að hann virðir ekki
mörk og/eða mannhelgi viðfangsins, heldur telur sig mega ráðast á
viðfangið, brjóta það og bramla.
Í sjötta lagi kemur hlutgerandinn fram gagnvart viðfanginu sem það
væri eign einhvers og því falt til kaups og sölu.
Í sjöunda lagi er framkoman þannig að ekki er reiknað með reynslu
og tilfinningum viðfangsins.18
16 Martha C. Nussbaum, „Objectification“, bls. 217.
17 Martha C. Nussbaum, „Objectification“, bls. 218.
18 Sama heimild, bls. 218. Ensku hugtökin sem Nussbaum notar yfir breytnina eru:
1) instrumentality, 2) denial of autonomy, 3) inertness, 4) fungibility, 5) violability,
6) ownership og 7) denial of subjectivity. Allar þýðingar eru greinarhöfundar.
SÓLvEiG ANNA BÓASDÓTTiR