Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Page 44
43
Það sem klámið skilgreinir sem ást og rómantík líta femínistar frem-
ur á sem hatur og misþyrmingu. Ánægja og kynferðisleg löngun
snýst upp í valdbeitingu. Girnd birtist sem löngun eftir drottnun og
undirgefni. Berskjöldun kvenna í kynlífi gerir þær að fórnarlambi.
Leikur fylgir fyrirframgefnum hlutverkum og ímyndunarafl tjáir
hugmyndafræði sem ekki er unnt að umflýja. Aðdáun á náttúrulegri
fegurð verður hlutgerving. Hið saklausa snýst upp í skaða. Hið allt-
umlykjandi klám er meinsemd, orsökuð af karlveldinu, en erfitt er
að koma auga á það vegna þess hve vel hefur tekist til að klám-
væða heiminn. Skaðsemi þess er nær ómögulegt að greina, hvað þá
bregðast við, frá hlutlausum sjónarhóli, vegna þess hve fyrirferð-
armikið og útbreitt klámið er. Með öðrum orðum, það er samræmi
milli þess hversu vel kláminu vegnar í mótun raunveruleikans og
þess ósýnilega skaða sem það veldur. við búum í heimi sem klámið
hefur mótað, fyrir tilstilli karla í valdastöðu. Spurningin snýst ekki
um í hverju skaðsemi kláms felst heldur hvernig sé hægt að gera þá
skaðsemi sýnilega.32
Freistandi er að tengja þennan mjög svo alhæfandi texta við altæka túlk-
un Kants á kynhvötinni.33 Þótt vitaskuld sé margt mjög ólíkt í framsetn-
ingu þeirra virðist eitt sameina MacKinnon og Kant. Það er áherslan á
niðurlægingu persónunnar í kynlífi vegna hlutgervingar sem í túlkun
MacKinnons nær þó aðeins til kvenna. Hún skrifar. „Persónan í huga
Kants er skynsöm vera, frjáls gerða sinna sem lifir samkvæmt eigin mark-
miðum í stað þess að vera tæki. Í klámi eru konur aðeins til sem markmið
ánægju karla“.34 Eins og við munum þá merkir það að vera markmið í
sjálfum sér að vera persóna með virðingu og reisn. Það eru konur ekki í
kynlífi innan karlveldissamfélaga að mati MacKinnons því klám setji svip
sinn á allt kynlíf. Ímyndir klámsins hlutgeri allar konur og þessvegna sé allt
kynlíf vanvirðandi fyrir konur.35
32 Catharine MacKinnon, Feminism Unmodified, bls. 174.
33 Sjá Barbara Herman, „Could it be worth thinking about Kant on sex and marriage“,
A Mind of One’s Own. Feminist Essays on Reason and Objectivity“, ritstj. Louise M.
Antony & Charlotte E. Witt, bls. 53–72. Í þessari grein sýnir Herman fram á bein
tengsl milli texta Kants um kynferðislega hlutgervingu og túlkun Dworkins og
MacKinnons á hlutgervingu kvenna í kynlífi, einkum þó í klámframsetningu.
34 Catharine MacKinnon, Feminism Unmodified, bls. 158.
35 Hér vísar MacKinnon til alls kynlífs í karlveldissamfélögum, einnig milli tveggja
kvenna. Lesbíur eru hér ekki undanskildar heldur hafa ímyndir klámsins áhrif á
HLUTGERviNG, KYNLÍF OG KLÁM