Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Page 45
44
Kant, á hinn bóginn, taldi vanvirðingu óhjákvæmilega í öllu kynlífi utan
hjónabands, óháð kyni. varnaðarorð hans beindust að öllum, konum jafnt
sem körlum, og lausnina fyrir bæði kyn fann hann í hjónabandinu. Tónn
MacKinnons er álíka alhæfandi um kynlíf og slæmar afleiðingar þess en
samkvæmt henni eiga allar konur vanvirðingu á hættu í kynlífi, óháð hjú-
skaparstöðu. Það sem veldur þessu er klámið og niðurlægjandi áhrif þess á
konur. Skaðleg áhrif kláms fyrir konur hefur MacKinnon ítrekað í skrifum
sínum, einkum með tilvísun til þeirra kvenna sem vinna í klámiðnaðinum
en einnig með breiðari skírskotun sem nær til allra kvenna samanber þessi
orð: „[Klám] skaðar fjölda kvenna, á einstaklingsplani, og stuðlar að því að
halda öllum konum í undirskipaðri stöðu . . .“36 Samkvæmt MacKinnon
er klám því mikilvægur þáttur í kúgun allra kvenna og stendur fyrir hvort
tveggja í senn; ráðandi hugmyndir um undirskipaða stöðu allra kvenna í
menningunni og hvernig konur sem einstaklingar eru hlutgerðar. Lítum
nánar á túlkun MacKinnons á hlutgervingu þá sem klám veldur.
Líkt og flestir femínistar gengur MacKinnon út frá því að kerfisbund-
inn ójöfnuður einkenni öll samskipti kynjanna í menningunni en það
merkir jafnframt í hennar túlkun að allar konur eru hlutgerðar af hálfu
allra karla í karlveldissamfélögum.37 Þessi staða er til komin vegna áhrifa
klámsins og er viðhaldið af karlmönnum sem nýta sér það.38 MacKinnon
skilur hlutgervingu á mjög svipaðan hátt og Kant. Að hlutgera manneskju
felur það í sér að umbreyta henni í tæki, minnka hana og gera hana að hlut
sem má brúka. Hún skrifar um kynferðislega hlutgervingu: „Kynferðislegt
viðfang er skilgreint á grundvelli útlits og hvernig má nota það sér til
kynferðislegrar ánægju. Hvort tveggja útlitið og áhorfið sem og skilgrein-
ingin á notkuninni er gert kynferðislegt og er hluti kynlífsins. Þetta er
skilgreiningin á femíníska hugtakinu kynferðislegt viðfang (e. sex object)“.39
Mikilvægt atriði sem skilur á milli túlkana Kants og MacKinnons á kyn-
ferðislegri hlutgervingu er hver sé hin raunverulega orsök hennar. Þetta
er mjög mikilvægur munur en í tilviki Kants er það eðli kynhvatarinnar
sem er kennd af því tagi sem maðurinn á sameiginlega með skepnunum.
alla. Catharine MacKinnon, Toward A Feminist Theory of the State, Cambridge Mass
& London: Harvard University Press, 1989, bls. 141–142.
36 Catharine MacKinnon, Feminism Unmodified, bls. 178.
37 Í Feminism Unmodified má finna þessa túlkun á bls. 6, 32–45 og 50 en í Toward A
Feminist Theory of the State, á bls. 113–114, 128, 13 –14.
38 Catharine MacKinnon, Feminism Unmodified, bls. 176.
39 Sama heimild, bls. 173.
SÓLvEiG ANNA BÓASDÓTTiR