Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Qupperneq 52
51
jafnframt er samningur tveggja sjálfráða aðila sem samþykkja gagnkvæma
notkun á líkama sínum. Hlutgerving í kynlífi sem er eðlilega vanvirðandi
í augum Kant umbreytist í hjónabandinu í ásættanlega hlutgervingu sem
ekki rænir einstaklingana virðingu sinni og reisn. Þótt hjónin noti líkama
hvort annars sem tæki í kynlífinu er enginn skaði skeður þar sem þau leyfa
þá notkun fúslega samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi.
Túlkun í þessum anda má finna hjá Nussbaum sem bendir á nauðsyn
blæbrigðaríkrar túlkunar á hlutgervingu í kynlífi og klámi og mats á sam-
henginu hverju sinni. Í kynferðislegu samhengi, bendir hún á, virðist sem
hlutgerving sé mikilvægur hluti kynferðislegrar tjáningar og ánægju, skoð-
un sem byggist m.a. á rannsókn hennar á þekktum bókmenntatextum þar
sem kynlífsathöfnum af fjölskrúðugu tagi er lýst. Í samhengi kynlífs eins
og annars staðar í lífinu, ályktaði Nussbaum, er þó alltaf siðferðilega mik-
ilvægt að manneskjur hafi raunverulegt frelsi og sjálfræði og þar með val
um í hvaða atferli þær taki þátt en séu ekki beittar blekkingum eða þving-
unum af neinu tagi.
Þrátt fyrir að eiga margt sameiginlegt varðandi sýn á hlutgervingu í
samhengi kynlífs greinir þau Nussbaum og Kant á um mjög mikilvæg
atriði. Þar ber hæst skilning á kynhvötinni, eða því sem nú um stundir er
oftar nefnt kynverund manneskjunnar. Kant geldur varhuga við kynhvöt-
inni þar sem hún fær að herja ótamin því það sé eðli hennar að hlutgera,
í merkingunni að vanvirða persónuna. Þannig bjóði siðferðið að hún sé
hamin og þar með komið í veg fyrir siðferðilegan skaða af hennar völd-
um. Þetta erfiða verkefni er einungis á færi hjónabandsins, að hans mati,
og staðfestir Kant þar með hefðbundnar skoðanir fjölda þekktra fulltrúa
vestrænnar menningar, þ.á m. mótmælendaguðfræðinganna Marteins
Lúther og Jóhanns Kalvín sem vísuðu gjarnan í orð heilags Ágústínusar og
fleiri kirkjufeðra en þeir byggðu túlkun sína um hin réttu tengsl kynhvat-
arinnar og hjónabandsins á orðum Páls postula um að betra sé að ganga í
hjónaband en brenna af girnd (1Kor.7.9).62 Lúther og Kalvín töluðu báðir
um hjónabandið sem kynferðislegan taumhaldsramma og eina réttlæt-
62 Sjá t.d. L. William Countryman, Dirt, Greed & Sex. Sexual Ethics in the New
Testament and their Implications for Today, Philadelphia: Fortress Press 1988; Mark
D. Jordan, The Ethics of Sex, Oxford: Blackwell, 2002, bls. 107–154; Peter Brown,
The Body and Society. Men, Women, and Sexual Renunciation in Early Christianity,
New York: Columbia University Press, 1988, bls. 387–427; John Witte Jr., From
Sacrament to Contract. Marriage, Religion, and Law in the Western Tradition, Lou-
isville: Westminster John Knox, 1997.
HLUTGERviNG, KYNLÍF OG KLÁM