Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Side 84
83
hreyfing sem áhrif fengi í Danaveldi. Um óbeinar forsendur er þó að ræða
þar sem enn var óvíst hvort Kristján yrði konungur okkar eða ekki.
Á árunum 1534–1536 geisuðu átök í Danmörku um krúnuna eftir
dauða Friðriks i (1533), svokallað greifastríð. Bændur og borgarar stóðu
með Kristjáni ii sem ríkt hafði 1513–1523 en hrökklast frá ríki. Aðallinn
fylgdi aftur á móti Kristjáni hertoga sem hét honum áframhaldandi skatta-
fríðindum. Báðir voru þeir nafnar lútherskir þar sem Kristján ii hafði
gerst lútherskur í útlegð sinni í Þýskalandi.10 Því var ljóst að óháð því hvor
nafnanna tæki við konungstign lyti ríkið lútherskum fursta þegar deilan
væri til lykta leidd. Þar með sköpuðust beinar forsendur fyrir að danska
ríkið og þar á meðal Ísland yrði fyrr eða síðar lútherskt. úrslit átakanna
urðu að Kristján hertogi bar hærri hlut frá borði með sigri sínum yfir
Kaupmannahöfn (1536).11
Tímabilið 1536–1539 markar hið eiginlega siðaskiptaskeið í Danmörku
þrátt fyrir að siðbótarhreyfingin hefði haft áhrif einkum í ýmsum borgum
landsins (t.d. víborg, Kaupmannahöfn og Málmey) í á annan áratug.12 Í
uppgjörinu eftir greifastríðið 1536 var skuldinni skellt á biskupana sem
voru settir af og hnepptir í varðhald. Árið eftir markaði svo formleg siða-
skipti í Danmörku er konungshjónin voru krýnd, konungur undirritaði
kirkjuskipan sína, sem var birt í opinberri danskri þýðingu tveimur árum
síðar, sjö biskupar („súperintendentar“) voru vígðir að lútherskum hætti
og Kaupmannahafnar háskóli hóf að nýju starfsemi og nú á lútherskum
grunni.13 Sama ár flúði Ólafur Engilbrektsson (1480–1538) síðasti erki-
biskupinn í Þrándheimi land.14 Þar með var Danmörk orðið lútherskt ríki.
Eftir þetta virðist aðeins spurning um tíma og aðferð hvenær siðaskipti
yrðu á Íslandi sem var á jaðri ríkisins fjærst í út-norðri. Hér er því um að
ræða beina forsendu þess að við yrðum lúthersk.
10 Martin Schwarz Lausten, Kirkens historie i Danmark, bls. 36. Martin Schwarz
Lausten, Christian den 3. og kirken, bls.11. „Christian 2. Konge af Danmark-Norge
1513–23 og Sverige 1520–23“, danskekonger.dk, sótt 6. ágúst 2015 af http://www.
danskekonger.dk/kongerne/christian-2.
11 Carsten Bach-Nielsen, „1500–1800“, bls. 120.
12 Martin Schwarz Lausten, Danmarks kirkehistorie, Kaupmannahöfn: Gyldendal,
1983, bls. 107–109, 116. Martin Schwarz Lausten, Kirkens historie i Danmark,
bls. 29–32, 35–36. Carsten Bach-Nielsen, „1500–1800“, bls. 108–110, 112–114,
115–117.
13 Martin Schwarz Lausten, Kirkens historie i Danmark, bls. 36–39. Carsten Bach-
Nielsen, „1500–1800“, bls. 120–123, 126.
14 Carsten Bach-Nielsen, „1500–1800“, bls. 129.
HvENÆR URðUM við LúTHERSK?