Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Qupperneq 93
92
lágu fjær kirkjumiðstöðvunum og við fátækar kirkjur þar sem erfitt var um
vik að útvega nýjar helgisiðabækur.
Helgisiðir eru opinbert fyrirbæri sem einkum er stýrt að ofan og eru
því hluti af „stórri menningu“. Margháttuð tengsl eru milli helgisiða og
trúarhátta en með því er átt við heilt kerfi félagslegs atferlis, siða og venja
með ýmiss konar trúarlegu ívafi sem þó tengjast daglegu lífi og hverdags-
legum athöfnum. Trúarhættirnir eru hluti af alþýðumenningu og heyra
því til „litlu menningunni“ á hverjum stað.36 Þá eru trúarhættir eitt helsta
einkenni trúarmenningar og tengja saman hið veraldlega svið samfélagins
og hið trúarlega, heilaga eða yfirnáttúrulega. Trúarháttum verður, öfugt
við helgisiði, ekki stýrt eða þeim breytt af yfirvöldum nema að litlu leyti, á
löngum tíma og með markvissri trúarlegri og menningarlegri innrætingu.
Því verður að líta svo á að trúarhættir þjóðarinnar hafi að verulegu leyti
verið mótaðir af kaþólsku lengi eftir siðaskipti.37
Jón Steingrímsson (1728–1791) eldklerkur lýsti í ævisögu sinni trúar-
siðum sem hann var alinn upp við og ástundaði í æsku. Þeir einkenndust
meðal annars af látlausum lestri bæna og versa þegar þörf var á hugarró
eða teflt þótti á tvísýnu. Að formi til var hér um sömu venju að ræða og í
kaþólskum sið. „Faðir vor“ eða Pater noster gegndi enn verulegu hlutverki
en evangelískir textar voru búnir að ryðja Ave Maria og öðrum kaþólskum
bænum úr vegi.38 Hjá guðmóður sinni og afasystur, Guðnýju Stefánsdóttur
(f. um. 1678), sem var upplýst lúthersk kona, hefur Jón kynnst fornum
trúarháttum sem vafalítið hafa haft að geyma miðaldakaþólskar leifar í
bland við afgamlar venjur og siði.39 Ógerlegt er raunar að segja hvenær
mögulegt er að líta svo á að trúarhættir þjóðarinnar hafi verið orðnir lúth-
36 Með stórri menningu er átt við fjölþjóðlega menningu sem miðlað er í rituðu máli
og skólakennslu. Með lítilli menningu er aftur á móti átt við alþýðlega menningu
sem miðlað er munnlega og með heimilisuppeldi. Hún einkennist af ýmiss konar
staðbundnum einkennum um sameiginleg stef (t.d. flökkusögur o.s.frv.). Peter
Burke, Folklig kultur i Europa 1500–1800, Människan i historien, sænsk þýð. Su-
zanne Almqvist, án útgst., Författarförlaget, 1983, einkum bls. 38–81. Trúarhættir
voru hluti af trúarlífi fólks en tengdu jafnframt trúarlífið hversdagslífi fólks (t.d.
bústörfum, sjóróðrum eða öðru daglegu lífi). Um trúarhætti sjá Hjalti Hugason,
„Kristnir trúarhættir“, Íslensk þjóðmenning v, ritstj. Frosti F. Jóhannsson, Reykja vík:
Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1988, bls. 75–339, hér bls. 79, 335.
37 Hjalti Hugason, „Kristnir trúarhættir“, bls. 79, 282, 291–292, 339 og 330–331.
38 „viðauki. Ævisaga Jóns Steingrímssonar (Lbs. 182 4to)“, í: Jóhannes B. Sigtryggs-
son, Málið á Ævisögu Jóns Steingrímssonar, Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla
Íslands, 2011, bls. 3–196, hér bls. 5, 11–12.
39 „Ævisaga Jóns Steingrímssonar (Lbs. 182 4to)“, bls. 4, 7–8.
HJALTi HUGASON