Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Blaðsíða 112
111
Ég nefni þetta af því að ég ætla hér að gera tilhlaup að ævisögu Bjarna
Bernharðs, Hin hálu þrep: Lífshlaup mitt – og drepa reyndar líka á undan-
fara hennar Kaleik – en Bjarni var ungur greindur með geðklofa, nánar
tiltekið með „schizophrenia paranoides“.5 Saga hans var í hópi fleiri sagna
rithöfunda er út komu síðastliðið haust og sóttu efnivið sinn að einhverju
leyti í ævi höfundanna.6 Hin hálu þrep hefur nokkra sérstöðu meðal þess-
ara sagna, til að mynda af því að höfundurinn gefur hana út sjálfur. En
bókin er líka forvitnileg af því að í henni endurómar rödd sjálfmenntaðs
skálds og málara úr verkalýðsstétt „sem hefur fengið greiningu“ – ekki
rödd langskóluðu mannanna sem greindu hann – og lýsir afar óvenjulegu
lífshlaupi sem samræmist ekki beinlínis ríkjandi hugmyndum um borg-
aralega meðalhegðun. Sagt er frá sýrutrippum og neyslu sveppa, ofskynj-
unum og alvarlegum geðrofsköstum og reyndar morði sem afleiðingu
eins þeirra. Ætla má því að frásögnin kalli á mjög sterk viðbrögð lesenda.
við það bætist að fleiri en einn tjáningarháttur er nýttur til að segja sög-
una, þ.e.a.s. bæði málverk, ljóð og frásögn. Hin hálu þrep er með öðrum
orðum marghátta.7 Reynslan sem bókin miðlar, tjáningaraðferðirnar og
tilfinningarnar sem þær ýfa, vekja upp þanka um æði margt. Í fyrsta hluta
geri ég grein fyrir fáeinum atriðum sem talin hafa verið einkenni skit-
sófreníu og ræði ólíka sýn fræðimanna á hana. Þá sný ég mér að Hinum
hálu þrepum, drep á æviskrif sem menningarfyrirbæri og huga að útliti
bókarinnar í tengslum við það; ber hana ögn saman við Kaleik en vík svo
að ákveðnum megineinkennum hennar með skírskotun til ýmissa fræða.
Því næst tek ég valin dæmi úr henni, greini þau, túlka og set í samhengi,
en ræði ekki síst hvaða áhrif þau hafa haft á sjálfa mig eða kunni að hafa á
aðra. Loks skýri ég nánar afstöðu mína til Hinna hálu þrepa og ræði m.a.
breytta afstöðu Bjarna Bernharðs til þeirrar sjúkdómsgreiningar er hann
fékk á sinni tíð.
5 Bjarni Bernharður, Hin hálu þrep: Lífshlaup mitt, Reykjavík: Egoútgáfan, 2015, bls.
56. Fyrr hafði Bjarni gefið út ævisögu, sjá Bjarni Bernharður, Kaleikur, Reykjavík;
Egoútgáfan, 2008.
6 Hér nægja sem dæmi skáldsaga Hallgríms Helgasonar, Sjóveikur í München, Reykja-
vík: JPv útgáfa, 2015 og saga Mikaels Torfasonar, Týnd í Paradís, Reykjavík: Sögur
útgáfa, 2015.
7 Í samtali við Bjarna Bernharð 10. febrúar 2016 fékk ég að vita að málverkin væru
flest frá síðustu þremur árum en ljóðin frá síðustu tíu eða þar um bil.
„ÓMSTRÍðUR TAKTUR KviKRA STRENGJA“