Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Page 127
126
með barninu sem engu réð um hörðustu örlög sín, og þeim viðbrögðum
má ætla að margir lesendur bókarinnar deili.43 Samkenndin (e. compassion)
með barninu dýpkaði svo og fékk sumpart séríslenska tilvistarvídd þegar
ég beindi sjónum að næstu síðu þar sem staðsetningunni „Selfoss“ er fylgt
eftir með orðunum „Straumhart fljót rennur í gegnum sveitaþorp“ (9).
Klofningurinn sem dreginn er fram með þessum orðum, vísar bæði fram
og aftur í bókinni. Hann kallast á við hina tvískiptu reynslu ljóðmælandans
í „Kossi leðurblökunnar“ (maður – vampíra) og leikur undir allri frásögn
sögumanns af þorpinu; þar er stéttaskipting skýr, fólki sundrað í hópa eftir
efnahag og börn hinna fátæku sniðgengin og uppnefnd en lögð í einelti ef
þau skera sig úr, eins og sögumaður sjálfur. Í ofanálag vísar klofningurinn
fram til seinni frásagna sögumanns af geðrofsköstum sem hann fær, þannig
að skítsófren menningin verður enn áleitin – ekki síst grimmd hennar af
því að hún bitnar á varnarlausu barni. vísast eiga margir auðvelt með að
ímynda sér einsemd barnsins sem sögumaður eitt sinn var; það á fáa leik-
félaga nema eldri bróður sinn og án hans situr það eitt með drauma sína
um aðra bjartari staði:
hann er fimm ára snáði
bróðir hans er árinu eldri
og er byrjaður í vorskóla
– það eru tveir hólmar í ánni
á öðrum hólmanum
vaxa hríslur
sem sólargeislarnir leika um
– á bjartviðrisdögum
langar hann þangað út
en áin er breið og djúp.
(12)
er á bls. 536. Dæmi um nýlega grein um vampírisma er Jolene Oppawasky, „vamp-
irism: clinical vampirism – Renfield’s syndrom“, Annals of the American Psychotherapy
Association 4/2010, bls. 58–64.
43 Hæfni mannsins til að finna til samkenndar hefur verið tengd tegundarsögu hans
og kerfum sem eiga að hafa þróast með honum gegnum tíðina vegna umönnunar
hans um ungviði, sjá Paul Gilbert, The Compassionate Mind: A New Approach to
Life’s Challenges, Oakland, CA: New Harbinger Pulications, 2010, bls. 103 og 178
(t.d.).
BERGljóT SoffíA KRiSTjánSdóTTiR