Skírnir - 01.04.2003, Síða 80
74
GEIR SIGURÐSSON
SKÍRNIR
hinn „æðsti“, „efsti“ eða „fyrsti höfðingi".9 Shang di lék einkum
mikilvægt hlutverk í hinu forna keisaraveldi Shang10 (1751-1112
f.Kr.) og var þá dýrkaður sem einhvers konar guð í mannsmynd
og honum færðar fórnir. í hinu næsta keisaraveldi, Zhou
(1111-249 f.Kr.), tók shang di smám saman að víkja fyrir hugtak-
inu tian sem getur merkt „himin“ og átti síðan eftir að leika mikil-
vægt hlutverk í konfúsískri hugsun.* 11 Samtímis hnignaði trúnni á
persónugerðan guð. Þess vegna taldi Ricci Kínverja áður hafa ver-
ið á réttri leið (í átt til himnaríkis) en síðan villst af henni.
Kristmunkar á 17. öld héldu þó uppteknum hætti og reyndu að
sannfæra páfaveldi um að hið kínverska hugtak fyrir himin, tian,
vísi í raun og veru til Guðs, enda hafi það tekið við af shang di.
Fulltrúar páfaveldis voru þó fullir grunsemda. Sérstaklega sveið
þeim undan því, sem jafnframt var helsta ágreiningsefni „helgiat-
hafnadeilunnar", að enda þótt trúboðunum væri vel tekið við hirð
kínverska keisarans, og fengju nánast ótakmarkaða athygli hans,
var hinum hefðbundnu athöfnum til heiðurs Konfúsíusi og fórn-
um til forfeðranna haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þeir
sem aðhylltust aðlögunarstefnuna að hætti Riccis, sem flestir voru
kristmunkar, litu hins vegar svo á að hér væri ekki um trúarlegar
athafnir að ræða, heldur „borgaralegar“ eða „pólitískar" og því
9 Wenchao Li bendir á að í hinni fornu Söguritningu (Shujing), en hlutar hennar
kunna að vera elstu kínversku ritningarnar sem varðveist hafa, vísi di einfald-
lega til hins fyrsta sögulega höfðingja eða keisara Kínverja, Yao. Þegar sá næsti,
Shun, tók við var hann sömuleiðis nefndur di. En þá þurfti að greina þann fyrsta
frá hinum næsta og þetta var gert með því að kalla hann shang di, eða hinn
„fyrsta“ keisara. Shang, sem annars getur merkt „hæsti“ eða „efsti“, vísar þar
með fyrst og fremst til tíma en ekki rúms. Sjá Li, s. 97.
10 Til að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að nefna að þetta heiti keisaraveldis-
ins er í engum tengslum við shang i shang di. Hér er um tvö ólík kínversk tákn
að ræða.
11 Chan, s. 3-4. Eins og gildir um flest fornkínversk hugtök er tian afar margrætt.
Það getur vísað meðal annars til himinsins sem flest okkar sjá sérhvern dag,
himnesks yfirvalds, náttúrunnar og náttúrulegra ferla. Tian er sérlega vandþýtt
hugtak þar sem mögulegar þýðingar á borð við „himinn“ og „náttúra" fela í sér
menningarlegar tilvísanir sem því tilheyra ekki. Af þessum sökum hafa ýmsir
þýðendur valið að láta það standa óþýtt. Sjá til dæmis inngang Ames og Rose-
mont Jr. að The Analects of Confucius, s. 46-8. Ég mun víkja nánar að sérkenn-
um þessa hugtaks í lokahluta þessarar greinar.