Skírnir - 01.04.2003, Síða 105
SKÍRNIR
VATNIÐ OG UPPSPRETTAN
99
mátt umhverfisins birtist í mikilvægu hlutverki þeirra manna
(stundum kvenna) í þjóðfélaginu sem kallaðir eru „jarðarmeistar-
ar“ (tho cong) á víetnömsku. Þegar menn byggja hús eða hof, velja
legstað sjálfum sér eða öðrum eða vilja fá skýringar á slæmu gengi
undanfarinna vikna, kalla þeir gjarnan á „jarðarmeistara", sem
skynjar þá strauma sem eru í kringum manninn. Hann kann sitt-
hvað fyrir sér í dulspeki, þar á meðal Feng Sui og stjörnuspeki,
sem hann notar til að leysa vandamál eða útskýra það sem vefst
fyrir mönnum, og hann getur haft áhrif á hvernig til tekst í fram-
tíðinni.
Þá komum við að stærstu þjóðhátíð Víetnama, aðalfjölskyldu-
hátíðinni sem allir viðmælendur mínir minntust á með glampa í
augum, ekki síst þegar þeir lýstu matnum og eldamennskunni
„hennar ömmu“. Tet er nýárshátíð Víetnama, hátíð sem tengir
fortíðina við framtíðina. Hjá flestum stendur Tet í þrjá daga, en
hún hefst aldrei á sama degi frá ári til árs vegna þess að Víetnamar
reikna tímann samkvæmt tunglmánuðum, sem eru milli 29 og 30
dagar að lengd.19 Flestar hátíðir eru annaðhvort haldnar við upp-
haf mánaðar eða á fimmtánda degi, þegar tunglið er fullt.
Á 7et-hátíðinni (sem líkja má við jól á íslandi) nota menn tæki-
færið til þess að heimsækja vini og ættingja og óska þeim alls hins
besta, sérstaklega varðandi viðskipti, heilsu og velgengni barnanna
í skóla. Miðpunktur hátíðarinnar er þegar stórfjölskyldan safnast
saman í heimahúsi þar sem stofan er skreytt með tré eða stóru
blómi, til dæmis apríkósuplöntu eða bambustré (Cáy Neu). Litið
er á jurtina sem verndargrip gegn illum vættum. Ungmenni sem
ekki hafa fest ráð sitt fá gjafir, oftast peninga í rauðum umslögum
og eru þeir notaðir til þess að kaupa föt eða leikföng.20 Þá eru líka
19 Þetta tímakerfi þýðir að árið í heild verður of stutt. Þess vegna er bætt við
svokölluðum „tvíburamánuði" á 30-34 mánaða fresti til leiðréttingar: sem sagt,
mánuður eins og til dæmis febrúar eða mars kemur stundum tvisvar á árinu sem
„hlaupársmánuður“.
20 Yfirleitt halda Víetnamar í Víetnam ekki upp á afmæli á sama hátt og íslending-
ar (fjölskyldurnar eru of stórar, útskýrði einn viðmælenda minna). Dánardag-
ur virðist skipta meira máli. í Víetnam kemur Tet að sumu leyti í staðinn fyrir
afmæli, varðandi gjafir.