Skírnir - 01.04.2003, Qupperneq 207
SKÍRNIR SIGURÓP ANDSKOTANS EÐA REIÐI GUÐS?
201
ar séra Jón bar Þuríði Jónsdóttur því að valda frekari veikindum (29-31).
Því miður ferst fyrir að ræða hvenær hausts 1658 hún vann eið fyrir ásak-
anir hans og sú lykildagsetning er heldur ekki tilgreind í þræði helstu at-
burða strax á eftir inngangi (30, 49). Það að hún er ekki lengur til hefði
Matthías þurft að ræða. Umfjöllun um elliár séra Jóns og afdrif sonar hans
er óþarflega ítarleg (33-41).
Mikið traust er í inngangi og eftirmála lagt á rit Daða Níelssonar og
Sighvats Grímssonar um æviatriði presta án þess að heimildargildi þeirra
sé rætt eða til dæmis borið saman við Ævir lærðra manna eftir Hannes
Þorsteinsson, sem einnig eru notaðar, en Hannes hafði ólíkt greiðari að-
gang að heimildum en hinir tveir. Þeir eru fremur sambærilegir við Jón
Espólín, sem vísað er til á nokkrum stöðum, og hefði átt að duga að vísa
í umsagnir þessara karla svo sem til gamans, eins og gert er í upphafi
(9-10), en leita öruggari heimilda út frá Hannesi um þekkingaratriði sem
máli skipta (15-16, 34, 368, 373). Fram kemur um flutning séra Jóns úr
Ogurþingum að Eyri árið 1644 að hjá Sighvati hafi „sögur blandast nokk-
uð“ (20) og svipað gerist um barneignir Snorra sonar hans (35), sem hefði
átt að kalla á aðgæslu. Óþarfrar ónákvæmni gætir líka í upphafi inngangs
þar sem segir að umboðsmenn biskups hafi vísiterað að Eyri 19. ágúst
1656, eins og Brynjólfur biskup Sveinsson hafi ekki verið með í för (9).
Greinilegt er að svo var: „Óskar biskupinn" (274). Matthías áttar sig held-
ur ekki á því að áhugaverður munur er á texta í tveimur vísitasíum bisk-
ups með þriggja ára bili: „Ekki er vikið einu orði að þessum atburðum í
gjörð biskupsmanna" (10). Rúmum fjórum mánuðum eftir að þeir feðgar
voru brenndir segir í vísitasíu: „móti djöfulsins freistingum og árásum
sem nú geisa hér og annarstaðar á þessum seinustu háskalegu tímum“
(274). í vísitasíu þremur árum áður er þetta klisjukenndara: „að áminna
til guðs ótta, alvarlegrar iðranar og viðurkenningar framfarinna synda og
hirðuleysis sem (því miður), hingað til mun yfirgnæfa hér í kirkjusöfnuð-
inum sem annarstaðar“ (272). Hér hefði mátt bera saman við aðrar vísi-
tasíur: var orðalag að Eyri sumarið 1656 sérstakt vegna nýskeðra atburða
eða voru þetta frasar ársins almennt? Ennfremur hefði mátt gera sér mat
úr því að Brynjólfur var í sýslunni þegar síðari ásóknirnar hófust á séra
Jón í ágústlok. Biskup var á Stað í Aðalvík 16. ágúst, þar sem séra Árni
Loftsson þóttist í háska staddur (312), en hvert fór hann frá Eyri og hvar
var hann staddur þegar veikindi Jóns tóku sig upp að nýju? Og getur ver-
ið að vísitasíuferðin sumarið 1656 sé til komin vegna galdramálanna í
Skutulsfirði, því aðeins voru liðin þrjú ár frá því Brynjólfur fór um sýsl-
una síðast? Tengist ferðin líka galdramálunum í Trékyllisvík? Huga hefði
mátt betur að þessu til að sjá hvort ekki kæmi í ljós eitthvert samhengi
sem gæti aukið skilning okkar á þessum viðburðum öllum.
Matthías nýtir aftur á móti heimildir um Eyrarkirkju skemmtilega
(11-12, 21-22, 33), án þess þó að freista þess að tengja nákvæmar lýsing-