Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Page 22
E i n a r M á r G u ð m u n d s s o n
22 TMM 2012 · 1
lögregluþjónninn var ekki í góðu skapi. Ég reyndi að spauga við hann en
hafði lítið upp úr krafsinu. Hann stimplaði pappírana okkar og skráði
okkur svo inn í þetta fríríki grjóts og vopna.
Þegar við komum út sagði Joe Allard: „Sko, ég skal segja þér eitt,
Einar. Þið Íslendingar eruð fínt fólk en um leið og þið eruð komnir í
einkennisbúning missið þið allt skopskyn.“
„I guess you are right,“ sagði ég og minntist þess sem Halldór Laxness
segir um einkennisbúninga í sögunni af ósigri ítalska loftflotans í
Reykjavík 1933; af því að við eigum enga hermenn höfum við farið á
mis við „þann alkunna dýrðarljóma sem stafar af einkennisbúningum
ásamt þeim titlum og gráðum sem þessi sérkennilegi fatnaður tjáir.“
***
Nú sé ég Joe ljóslifandi fyrir mér þegar ég nefni þetta með einkennis-
búningana, og ég skynja um leið hvað ég sakna hans. Síminn hringir
ekki lengur óvænt og það er Joe að segja mér að hann sé á landinu. Joe
er dáinn. Þetta er minningargrein um hann. Matthías Johannessen
skáld var búinn að hvetja mig til að skrifa slíka grein. Joe Allard var
vinur okkar beggja. Ég þekki Matthías að góðu einu. Ég ætla ekki að
gera hann ábyrgan fyrir hegðun minni í sögunni eða þau viðhorf sem í
henni kunna að speglast, enda er Matthías fyrrverandi ritstjóri Morgun-
blaðsins og stuðningsmaður NATO og herstöðvarinnar á meðan hún
var. Hægrimenn sem studdu Morgunblaðið töldu Matthías vinstrimann
af því að hann orti ljóð í anda módernista og beatskálda en vinstrimenn
sem voru á móti Morgunblaðinu voru klárir á því að Matthías væri
hægrimaður og gæti því ekki verið skáld af því að skáld voru eðli máls-
ins samkvæmt vinstrisinnuð. Svona var kalda stríðið. Seinna var einsog
vinstrimenn iðruðust þessara glappaskota sinna og þá tóku þeir að lofa
ljóð hans. En svona hugsaði ekki maður einsog Joe Allard. Hann kom úr
annarri átt og það skipti hann engu máli hvort skáldin voru til vinstri
eða hægri, bara ef skáldskapurinn er góður. Þá talar hann sínu eigin
máli.
Joe Allard þýddi tvær ljóðabækur eftir Matthías Johannessen Voices
from across the Water (1997) og New Journeys (2004). Við Matthías
vorum einu sinni með Joe Allard á bókmenntahátíð í Toronto í Kanada.
Matthías las upp ljóð sín í þýðingu Joes Allard. Það var magnaður lestur.
Þarna var einnig sonur Joes Allard, Christopher Allard, þekktur djass-
gítarleikari í Englandi og Sane, japönsk eiginkona Joes. Joe Allard vann
ötullega að kynningu og útgáfu íslenskra bókmennta á Englandi. Hann
gaf út ljóð eftir ung skáld og bauð íslenskum höfundum að lesa upp