Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Page 40
40 TMM 2012 · 1
Dante Alighieri
Úr Kómedíunni
Þýðing: Einar Thoroddsen
PARADÍS 33. SÖNGUR
Dóttir eigin sonar, móðir, meyja,
undirgefnust, öllum skepnum hærri,
hæsta mið er eilífðirnar eygja,
þá gjöf er manninn gerðir tignarstærri
skaparinn að sönnu lét sér líka,
og sína mynd hann skóp í skepnu kærri.
Í kviði þínum kviknaði sú ríka
ást er sínum yli friði veitir,
sem aldrei dvína skal, við blómgun slíka.
Þú hádags bjarta blys er elsku þveitir
af ásjá bæði hér og meðal manna,
þú mæra lindin fjörg er vonum heitir.
Frúin hæsta hverrar virðið sanna
er slíkt að mærðar þrá án hjálpar þinnar
mun vængjalausum von um flugið banna,
og ekki bara gæzka gjafmildinnar
gjöfum svarar bænum, heldur tíðum
svarar fyrr en beiðst er bænarinnar.
Þú ert samúð, aumkun er við líðum,
dýrðin æðsta, í þér saman kemur
safn af allra kinda kostum fríðum.