Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Side 41
Ú r K ó m e d í u n n i
TMM 2012 · 1 41
Maður þessi, hvaðan neðstu nemur
alheims, hingað genginn götu alla,
en lífin sálna sá þar öllum fremur,
þig bænir heitt sinn kraftinn fram að kalla
af mildi þinni svo hann augum sínum
sjái lausnarinnar hæsta hjalla.
Og ég, sem aldrei sveið í sjónum mínum
sem líð ég fyrir hann, þig bænum beiði
sem beztar kann, í von að nægi þínum
bænum svo þær síðan fái leiði
að sundra skýjum dauðleiks svo hann megi
sjá þá gleði, hæst er skín í heiði.
Þér Drottning, bænir einnig upp ég segi,
sem getur allt sem vilt, að við þann ljóma
hann verndir, svo hans göfgi spillist eigi.
Vernda hann frá dyntum mannlegs Dróma.
Sjá Beatrís og blessuð fjöldin anda
þá bæn með spenntum greipum enduróma.
Og augun, djúp af Drottins ást og vanda,
sem litu þann er bað, nú birtu sýndu
hve bænir sannar mat hún sér til handa,
en vendu og í eilíft ljósið blíndu
í ótrúleik er öllum skepnum meinar
sem inn í ljósið augum skærum rýndu.
Og er ég hæstu óskatrésins greinar
í nálgun sá svo víst sem vera skyldi,
var þráin slökkt með óskir ekki neinar.
Að líta upp mér Bernharð benda vildi
brosandi, en ég var með á nótum
og þá um leið hans þankagangi fylgdi,
því sjónin mín, er skýrðist hætti skjótum,
sameinaðist sífellt geislastöfum
ljóssins hæsta sjálfs af sönnum rótum.