Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Síða 48
H a l l g r í m u r H e l g a s o n
48 TMM 2012 · 1
kona, há og grönn, með mikið hrafnsvart hár“. Um Önnu Friðriksdóttur
að hún sé „óttalegur pappírsbúkur“. Samt sem áður smjúga þessar
persónur auðveldlega inn í vitund lesandans. Það lýsir vel karakternæmi
höfundar að í hvert sinn sem greyið Anna Friðriksdóttir birtist framan
af sögu fylgir henni þessi einstaki andblær af vængbrotnum hressleika,
þessi angistarfulla jákvæðni hinnar veikburða stúlku, og allt er það
einungis birt í orðum hennar.
Og sama má segja um hitt fólkið. Maður sér það fyrir sér þótt höf-
undurinn sýni manni aldrei mynd af því. Lesandinn svamlar um í
sagnadjúpinu líkt og í myrkri, en heyrir það sem sagt er og teiknar upp
sína eigin mynd. Og hér blasir við fjölbreytt gallerí. Dekurprinsinn Jón
og durturinn Siggi, skapsveiflandi Þóra og skyldurækin Magga, jafn-
lyndur Jakob og stuðmaðurinn séra Hallgrímur, búlynd Borghildur og
lokkandi Lína. Og svo er það Ketilríður, kapítuli útaf fyrir sig.
Í nýlegu hefti Stínu ritaði Bergsveinn Birgisson um norskan höfund
að hann láti sér annt um bresti mannfólksins. (Sem er ansi góð lýsing
á starfi rithöfunda, þessari stétt manna sem nærist á ógæfu mann-
fólksins.) Það sama má segja um Guðrúnu frá Lundi. Hún tekur fólki
eins og það er. Og sýnir okkur eins og það er: Þessi er svona og svona og
getur ekki öðruvísi verið. Hún hefur kjarna hvers og eins í greip sinni, og
eðli hverrar persónu speglast því í orðum hennar með mjög nákvæmum
hætti. Jafnvel í einni línu sem höfundur lætur upp í gamla konu nær
hann að teikna upp allt hennar líf og sálarlíf, jafnvel líf heillar þjóðar.
Eða hvað segir svona setning okkur ekki um þúsund ára stöðu íslenskra
kvenna á grjóthellugólfum hlóðaeldhúsanna:
Bls. 356:
„Hvað er að heyra þetta, manneskja! Heldurðu að þú fáir að sjóða slátur brúð-
kaupskvöldið þitt!“ skrækti Magga.
Jafnvel börnin fá hér að tala á sínu máli og verða fyrir vikið sprelllif-
andi á síðunni. „Jakob á edda. Eggi daga edda,“ segir Jakob litli á bls.
544. Slíkur hæfileiki til persónusköpunar er ekki algengur meðal höf-
unda, og kúnstin að skrifa talmál (jafn auðveld og sjálfsögð hún virðist)
er jafnvel enn sjaldgæfari. Er hér að líkindum kominn lykillinn að
velgengni bókanna um lífið í dalnum. Lesendum finnst þetta vera lif-
andi fólk, alvöru fólk, og forvitnin verður því endalaus.
Á tímabili var maður jafnvel farinn að velta því fyrir sér hvernig Jón
væri í rúminu, svo raunverulegur var hann. Og þá veit ég ekki hversu
oft ég hrópaði niður stigann, útum gluggann, í miðjum lestri: „Heyrðu,
þau voru að missa barnið!“ Eða „Nei, nú eru Þórður og Lína farin að