Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Page 83
I n n i s k ó r
TMM 2012 · 1 83
Tengdapabbi stóð upp með erfiðismunum og staulaðist nokkur skref
um búðina. Ég fylgdi honum eftir.
„Hvernig kanntu við þá?“ spurði afgreiðslukonan.
Hann gaf lítið út á það en spurði hvort þetta væru endingargóðir og
sterkir skór. Afgreiðslukonan sagðist halda að þeir ættu að endast betur
en gamla gerðin vegna þess að sólinn væri ekki úr korki. „Sumir vilja
heldur korkinn en þetta eru samt mjög vandaðir skór líka.“
„Hvað segir þú?“ spurði hann mig. „Mundir þú kaupa þér svona
skó?“
„Í þínum sporum mundi ég ekki hika við það.“
„En ef þú værir að kaupa skó á sjálfan þig?“
„Já, þeir kæmu vel til greina. Þetta eru sterklegir og breiðir skór og
liturinn er praktískur.“
„Þú segir það.“
„Ekki spurning.“
Ég undraðist þetta óöryggi hans enda var hann þekktur fyrir sérvisku
sína. Mat varð að elda á ákveðinn hátt annars kom skrýtinn svipur
á hann, frá fötum þurfti að ganga eftir kúnstarinnar reglum og skór
áttu að vera pússaðir, annars gekk hann ekki í þeim. Af hverju hann
þráspurði mig um álit vissi ég ekki enda var ég ekki neinn sérstakur
smekkmaður þegar kom að skóm, átti jafnvel til að ganga í illa burst-
uðum og ljótum skóm, dóttur hans til mikils ama.
„Já, hann segir það,“ sagði tengdapabbi og beindi orðum sínum að
afgreiðslukonunni.
Síminn hringir, þau í vinnunni að spyrja hvort ég sé ekkert að koma,
það þurfi að græja ákveðið mál fyrir fimm. Ég lít á klukkuna, hún er að
verða hálfþrjú og ég á eftir að keyra hann á líknardeildina aftur.
„Viltu ekki bara skella þér á þessa skó?“ segi ég við tengdapabba. „Mér
sýnist að þú fáir ekki hentugri skó hérna.“
„Ætli það ekki bara,“ sagði hann og rétti afgreiðsludömunni kortið
sitt.
Þegar hún kom með miðann tók ég eftir því að hann átti orðið erfitt
með að skrifa nafnið sitt.
***
Tíu dögum síðar lá tengdapabbi banaleguna. Hann leit enn ágætlega út
en sykursýkin og krabbameinið höfðu gert svo harða hríð að honum að
líffærin þoldu ekki meira. Síðasta blóðskilun hafði ekki tekist sem skyldi
vegna þess að blóðþrýstingurinn féll hjá honum og von bráðar lagðist