Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Page 31
„ M a ð u r þa r f e k k i a ð s k r i fa f y r i r s k ú f f u n a“
TMM 2012 · 2 31
Harukis Murakami og skáldsögu hans Harð-soðið undraland og Endimörk
heimsins. Með því að bera saman brot úr textunum tveimur má fá hugmynd
um það hvernig úrvinnslu Sölva Björns er háttað:
Úr Harð-soðnu undralandi og Endimörkum heimsins:
„Langur gangur, finnst þér ekki?“ Ég reyndi að brjóta ísinn. Hún leit á mig en hélt
áfram göngu sinni. Ég giskaði á að hún væri tuttugu eða tuttuguogeins. Afgerandi
línur, breytt enni, bjart litaraft.
Það var þá sem hún sagði, „Proust“. […]
„Marcel Proust?“ spurði ég.
Hún virti mig fyrir sér. Svo endurtók hún, „Proust.“ […] Það sem ég fékk ekki
skilið voru tengslin milli þessa langa gangs og Marcel Proust[.]
Kannski notaði hún Marcel Proust sem myndhverfingu fyrir lengd gangsins. En þó
maður gæfi sér það væri það samt ekki dálítið langsótt – jafnvel tillitslaust – að taka
svona til orða? Nú, ef hún notaði þennan langa gang sem myndhverfingu fyrir verk
Marcels Proust þá gæti ég fallist á það. En andhverfan var fáránleg.
Gangur sem var eins langur og Marcel Proust?13
Úr Fljótandi heimi:
Ég hugleiddi hvort húsið væri drifið áfram með rafmagni eða, eins og algengt var um
tæki í suðlægari löndum, af áfengi, og þá hvaða áfengistegund hefði orðið fyrir val
inu. Jack Daniel’s, hvíslaði rödd úr hátalarakerfi lyftunnar. Að lokum stöðvaðist hún
og ég steig út á langan, upplýstan gang, ekki ólíkan undirmeðvitund Dostojevskís.
Undirmeðvitund Dostojevskís. Ég hafði enga hugmynd um hvaðan tilfinningin kom
en gat ekki lýst henni öðruvísi. Í nálægð var lykt af hitasótt. Sjálfur var gangurinn
óaðfinnanlega hreinn og flúorlýstir speglar eftir endilöngu. Í loftinu ‒ ég tók fyrst eftir
þessu núna – í loftinu stóð skrifað skýrum stöfum, margsinnis eftir því sem gangurinn
lá lengra inn í birtuna: T.S. Eliot, T.S. Eliot, T.S. Eliot.14
Rétt eins og Harð-soðið undraland og Endimörk heimsins gerist saga Sölva
Björns á tveimur ólíkum veruleikasviðum. Á öðru er sögð Reykjavíkursaga
af ungum stúdent sem kynnist dularfullri stúlku sem hverfur. Hún hefur
gríðarlega sterk áhrif á stúdentinn, líf hans og þroska og mótar hann fyrir
lífstíð. Leið hans til að vinna úr þessari reynslu er að hverfa inn í skáldskap
sem hún hafði kynnt hann fyrir; þar er hitt veruleikasviðið. Hann fetar braut
milli þessara tveggja heima að því sem raunverulega hefur átt sér stað:
„Ég er að gera tilraunir með form. Ég er að vinna úr sömu pælingum og
ég lagði á hilluna nokkrum árum áður þótt tilraunin hér snúi líka að því að
skrifa frásagnarbókmenntir frekar en bara fræðilega skáldsögu. Ég var líka
að vonast til að geta skrifað öðruvísi bók en íslensk bókmenntahefð síðustu
áratugina hefur verið hvað mest upptekin af. Fara burt frá hinu þjóðlega til
hins alþjóðlega og burt frá hinu íslenska til hins ungæðingslega, inn í popp
kúltúr. Að baki lá endurnýjunarþörf en um leið er þetta stúdía á áhrifum frá
öðrum höfundum, hvernig maður vinnur úr þeim í sínum eigin skáldskap.