Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Side 46
B r y n j a Þ o r g e i r s d ó t t i r
46 TMM 2012 · 2
og kúgaða. Abba var óvelkomin í heiminn vegna fötlunar sinnar. Því er lýst í
verkinu hvernig Downsbörnum var fyrirkomið strax við fæðingu.
En alltaf komust einhver svona mislukkuð fóstur á legg: Það gerðist í guðsvoluðum
útnárum þar sem enginn gat haft vit fyrir mæðrum sem héldu að þær hefðu í fullu
tré við börnin, þótt furðuleg væru. […]
Höfðu bændur mikinn ama af þessum „himnasendingum“ en heimilisfólkinu þótti
niðurlægjandi að deila baðstofu með vanskapnaði.
(Sjón, 2003a, bls. 70–71)
Írónían varðandi himnasendinguna er tvöföld – orðið Abba merkir nefnilega
himneski faðir eða guð, og það ásamt fleiru í sögunni vekur þá hugsun að líta
megi á Öbbu sem einhverskonar himneska eða guðlega veru.
Ummyndun Öbbu er kyrr, virðingarfull og hljóðlát. Henni er ekki lýst
nákvæmlega fyrir lesandanum heldur er hún gefin í skyn, og hún felur í
sér katasterisma; ummyndun í stjörnu eða stjörnumerki. Samkvæmt forn
grikkjum felur slík ummyndun í sér mikinn heiður, upphafningu og burtför
úr heimi þjáningar yfir á himneskan stað – á sjálfa kórónu himins (Hansen,
2005). Í gríska goðsagnaheiminum urðu öll stjörnumerkin á himninum
til vegna slíkar upphafningar guðanna á dauðlegu fólki eða dýrum. Ein
þekktasta umbreytingin í stjörnu í Ummyndunum er breyting Kallistó í
stjörnumerkið ursa maior eða Stóru birnu. Stundum fylgir katasterisma
hreinlega upphafning í guðatölu, eða apotheosis (Theodorokopoulus, 1999).
Það er í lokabókum Ummyndana Óvíðs sem nokkrar slíkar ummyndanir
verða. Allra síðasta ummyndun verksins felst í umbreytingu Júlíusar Sesars
í stjörnu; Venus ber glóandi og logandi sál hans í fanginu upp í himininn
og „ofar tungli steig sálin upp og skildi eftir sig eldslóða og tindrar nú sem
himintungl“ (Ovidius, 2009, bls. 432).
Ummyndun Öbbu verður þannig að Friðrik býr hinni kæru vinkonu
sinni persónulega og hjartnæma greftrun í kyrrþey. Hann færir hana í
vönduð spariföt og leggur hana í listavel gerða líkkistu sem Sölvi Helgason
smíðaði af hagleik og gaf henni. Á kistubotninum eru tvær tilvitnanir í
skáldið Óvíð, annars vegar úr Ummyndunum: „omnia mutantur, nihil
interit“ (Metamorphoses 15.165) sem útleggst „allt breytist, ekkert eyðist“,
og hinsvegar úr ástarelegíum Óvíðs: „sú byrði er létt sem vel er borin“, eða
„leve fit, quod bene fertur, onus“ (Amores I.2,10). Á brjóst Öbbu leggur hann
fuglabókina hennar og leikur svo á flautu stefið úr „Dauða næturgalans“
eftir Schubert.
Þá fyllast augu Friðriks loksins af tárum: Þau renna af stað niður kinnarnar en þorna
á miðri leið; það er kalt úti. Og hann kveður Hafdísi Jónsdóttur með sömu orðum
og hún kvaddi hann:
– Abbaíbó!2