Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Side 113
TMM 2012 · 2 113
Ástráður Eysteinsson
Ég sem er enn að myndast
Um skáldið Jónas Þorbjarnarson
Hvar endar maður?
Áttunda ljóðabók Jónasar Þorbjarnarsonar nefnist Tímabundið ástand og
birtist árið 2008. Þar er að finna ljóðið „Alpaþorp“ og í upphafsorðum þess
segir af kúm er „ber við himin“ upp af þorpi þar sem „gaurinn / útá verönd
síðla dags er ég“:
en orðið ég
(á stærð við kaffibaun)
hefur ekki afgirta merkingu
ég er ástand
sem nú verður ekki aðgreint
frá fjallasal, síðdegi, árnið
og hæð með kúm efst
Hinar himinbornu (heilögu?) kýr og „ég“ skáldsins á stærð við kaffibaun,
einmitt í Ölpunum þar sem skáld rómantíkurinnar áttu sínar háleitustu
stundir: Þetta er spaugileg sviðsetning, enda bjó Jónas yfir drjúgri kímni
sem hann hleypti fram í sumum ljóða sinna. En í þessum línum birtist
einnig það viðfangsefni sem Jónas glímdi alla tíð við af alvöru og ástríðu,
tilvistarspurning sem er öðrum þræði heimspekileg en skáldið varpar fram
á ýmsan hátt og í mörgum ljóðum – spurning sem lúrir kannski undir niðri
hjá flestum. Þessa spurningu hafði Jónas raunar gert að titli næstu bókar
á undan: Hvar endar maður? sem kom út 2005. Hvar tekur umhverfið við,
annað fólk, hlutirnir, tómarúmið? Eða er þetta allt hluti af manni, innan
marka sjálfsins jafnt sem utan? Eins og segir í næstu línum „Alpaþorps“: „ég
er samsafn líkt og heimurinn / það ægir öllu saman / hugsunum, landslagi,
kúm, þær streyma / kýrhægt niður“ en svo dimmir og ekkert er eftir „af
fjallasalnum stóra / nema árniður, trjályktin, ein og ein hugsun“.1
Þessi spurning brann ekki aðeins á Jónasi í þeim skilningi sem einkennir
öll staðarskáld – skáld sem skyggnast eftir því hvernig maður og staður
tengjast (eða tengjast ekki) – heldur á hún einnig við um þá áleitnu for