Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Page 35
TMM 2013 · 1 35
Steinunn Inga Óttarsdóttir
„En til hvers er að dvelja
við slíka dagdrauma!“
Um Ferðabók og sjálfsævisögu Sveins Pálssonar
Átjánda öldin og upphaf þeirrar nítjándu eru jafnan talin til erfiðustu
tímaskeiða í sögu íslensku þjóðarinnar. Hér geisuðu hallæri og hungurs-
neyð, plágur og pestir; fólk bjó við óblíð náttúruöfl, fátækt, einokun og
misrétti; kúgun og arðrán voru daglegt brauð og hugarfarið einkenndist af
ofstæki, bælingu og grimmd. Þó má ekki gleyma að á þessu armæðufulla
tímaskeiði var upplýsingarstefnan farin að láta á sér kræla með nýjum hug-
myndum, bjartsýni og von um betri tíð. Hennar sér stað m.a. í stjórnsýslu,
listum og trúarlífi og náttúrufræði sem tók stakkaskiptum með vísinda-
legum aðferðum, skilgreiningum og skipulegri skráningu. Túlkun manns-
ins á sjálfum sér breyttist, bókmenntir losnuðu úr gömlu formi og stíl, ný
yrkisefni komu til sögu og maðurinn sem sjálfráð skynsemisvera varð til.
Í Evrópu var margt á seyði á tímum upplýsingarinnar. Skólar risu, fangelsi
voru byggð ásamt sjúkrahúsum, heilsuhælum, geðveikraspítölum, munaðar-
leysingjahælum, verksmiðjum, leikhúsum og söfnum; dagblöð voru gefin út,
lögmál um vörur og neytendur urðu til, lyf og almenn heilsufræði komu til
skjalanna, samskipti og þjónusta urðu atvinnugreinar. Og einstaklingshyggja
varð til sem hafði gríðarleg áhrif á aldagamalt feðraveldi og stéttaskiptingu,
tíska losnaði úr spennitreyju sektar og erfðasyndar og þráin tók að láta á
sér kræla í orðræðu og hugsunum fólks. Skilgreindur vinnudagur í kjölfar
iðnbyltingar leiddi til þess að frítími kom til sögunnar og menn nutu hans
í lystigörðum, á torgum og kaffihúsum, menn tóku að trúa á umbætur á
samfélagi sínu, að þekking skilaði framförum og að guð hefði fulla stjórn
á skipulaginu og veraldarganginum (Porter, 2000). Upplýst læknisfræði
breytti fornri ásýnd dauðans sem með tilheyrandi syndaregistri, erfðaskrá,
fyrirbænum og líkvökum hætti að vera ógnvekjandi lokauppgjör við lífið og
varð að ljúfum svefni (Porter, 2003). Í stað mikilvægustu spurningar fyrri
tíma um það hvernig sálin yrði hólpin, fýsti menn að leita hamingjunnar í
jarðlífinu (Porter, 2000). Og í stað spákvenna, lófalesara og galdraseyða kom
ný sýn á vísindi og náttúru. Mælingar og greiningar (sjónaukar, smásjár,
loftvogir, hitamælar, rakamælar) og kerfisbundin alfræði komu til sögu
með skilgreiningum og líkindum. Áhrif upplýsingarinnar sem sviptist um