Tímarit Máls og menningar - 01.09.2017, Blaðsíða 4
4 TMM 2017 · 3
Kristín Ómarsdóttir
„Láttu ekki þessa ögn
hlæja að þér“*
Viðtal við Kristínu Steinsdóttur rithöfund
Kristín Steinsdóttir sækir oft efnivið skáldsagna sinna í strit og æfi kvenna;
stelpurnar sem samfélög og karlabókmenntir útskúfa verða söguhetjurnar.
Ferillinn spannar þrjátíu ár. Fyrstu sautján sendi hún frá sér leikrit og skáld-
sögur ætlaðar börnum, árið 2004 kom út skáldsagan Sólin sest að morgni sem
hún skrifaði fyrir fullorðna, tveimur árum fyrr Engill í vesturbænum sem
ætluð er börnum og fullorðnum. Von er á nýrri skáldsögu hennar í haust
Vertu ekki sár.
Kristín dregur hugmyndirnar upp úr kistlum fyrrum heimabyggðar fyrir
austan og úr borginni þar sem hún býr nú; hvort tveggja úr fortíðar- og
nútíðarbrunnum. Franskbrauð með sultu (1987) gerist á Seyðisfirði – eins-
og lýsingarnar gefa til kynna – árið 1955; þar brúar hún ótrúlega vel og
haganlega nútímann og eldri tíð sem maður lifir einsog nýja, þannig rennur
nútímabarnið inní tímavélina milliliðalaust. Kristín er sveitastelpa, Reykja-
víkurmær, heimsborgardama. Skáldsagan Á eigin vegum (2006) sem fjallar
um ekkju sem ber út dagblöð og læðist inn í jarðarfarir ókunnugra er ein
perla bókaflórunnar; fyrir hana hlaut Kristín Fjöruverðlaunin, auk þess var
bókin tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Kristín ólst upp á Seyðisfirði, bjó ung í Danmörku, Þýskalandi og Noregi
– síðan á Akranesi, þar sem hún kenndi við fjölbrautaskólann; hún flutti svo
til Reykjavíkur um aldamótin. Hún hefur unnið að hagsmunamálum rithöf-
unda, var formaður barnabókasambandsins SÍUNG og gegndi formennsku
fyrir Rithöfundasamband Íslands á árunum 2010–2014. Skáldsögur hennar
hafa margar einnig komið út í Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi,
Færeyjum, Grænlandi, Litháen, Eistlandi, Slóveníu og Ungverjalandi.
Kristín talar íslensku einsog enginn, óheyrð máltæki hrynja af vörunum
þegar við sitjum við glugga kaffihúss á hlýjum júnídegi niðri í bæ, fæst þeirra
fást til að festast á blaðið, sum þorði ég ekki að prenta.
* Fyrirsögnin er fengin úr skáldsögunni Franskbrauð með sultu þegar amma Lillu fær stúlkuna
til að borða ýsu.