Tímarit Máls og menningar - 01.09.2017, Blaðsíða 84
84 TMM 2017 · 3
Alda Björk Valdimarsdóttir
Jane Austen: Ævi, ástir
og framhaldslíf
Tveggja alda ártíðar hinnar frægu ensku skáldkonu Jane Austen (1775–1817)
hefur verið minnst víða um lönd á árinu 2017, en þó sérstaklega í Hamp-
shire í Suður-Englandi, þar sem Austen bjó stærsta hluta ævi sinnar. Jane
Austen Hampshire Cultural Trust hefur ásamt Jane Austen’s House Museum
skipulagt umfangsmikla hátíð með ýmsum uppákomum, eins og myndlistar-
sýningum, fyrirlestrum, gönguferðum, ritlistar- og ljósmyndakeppnum og
leiksýningum.1 Í Basingstoke og nágrenni í Hampshire má á afmælisárinu
meðal annars sjá 24 bekki, handmálaða af listamönnum, hannaða eins og
opna bók með myndskreytingum úr skáldsögum hennar. Síðast en ekki síst
var nýr 10 punda peningaseðill með mynd af Jane Austen tekinn í notkun
þann 18. júlí, 2017 við hátíðlega athöfn í dómkirkjunni í Winchester, en á
þeim degi lést hún fyrir 200 árum og var grafin undir kirkjugólfinu.2
Öllum þessum viðburðum voru gerð góð skil í heimspressunni, t.d. vest-
rænum stórblöðum eins og The Guardian og The New York Times, en áhug-
inn sem vestrænir fjölmiðlar sýna skáldkonunni er rökrétt niðurstaða af því
blómaskeiði í viðtökum á Austen sem hefur nú staðið yfir í þrjá áratugi, eða
frá árinu 1995, þegar þrjár kvikmyndaaðlaganir á verkum eftir hana litu
dagsins ljós. Þá fór af stað endurvakning á verkum hennar sem enginn endir
virðist vera á, en fjöldi nýrra aðlagana, þýðinga og hliðarsagna spretta upp á
hverju ári. Áhrif Jane Austen á afþreyingarmenningu kvenna í samtímanum
eru gríðarleg, m.a. hefur hún haft djúpstæð áhrif á karlpersónur vinsælla
ástarsagna og kvenhetjur skvísusagna eru einnig mótaðar eftir kvenhetjum
Austen.
Lífshlaup og helstu verk
Jane Austen fæddist 16. desember 1775 í smábænum Steventon í norðurhluta
Hampshire. Hún var dóttir prestsins George og eiginkonu hans Cassöndru
en þau eignuðust 8 börn. Eina systir Jane, Cassandra, var næstum þremur
árum eldri. Hún var jafnframt hennar besti vinur og lífsförunautur, en
hvorug systranna giftist. Jane Austen byrjaði ung að skrifa eða 11 ára gömul,