Milli mála - 2018, Blaðsíða 23
ERLA ERLENDSDÓTTIR
Milli mála 10/2018 23
árunum 1965–1968.61 Þá voru heimiliseldavélar í ýmsum litum,
m.a. avocado-grænar, auglýstar í blöðum og tímaritum á árunum
1976 og 1977.62 Hvað varðar dæmi um ritháttinn avókadó má líta
til gagnasafna Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en
í Markaðri íslenskri málheild (MÍM) eru nokkur dæmi sem sýna mörg
hver að heiti aldinsins kemur jafnan fyrir í auglýsingum dagblaða,
mataruppskriftum í matreiðslubókum og tímaritum ásamt því að
blasa við viðskiptavinum á matseðlum veitingahúsa og skyndi-
bitastaða. Lesendur dagblaða reka augun gjarnan í umfjöllun af
eftirfarandi tagi: „Avókadó er sannkölluð ofurfæða sem er sneisafull
af hollri fitu, trefjum og bætiefnum og er þessi þúsund ára gamla
krókódílapera ein vinsælasta matvaran á Vesturlöndum.“63 Við
þetta má bæta að fleirtala orðsins skýtur upp kollinum í grein sem
birtist í Bændablaðinu árið 2015 en þar notar greinarhöfundur orð-
myndina avókat og avóköt í fleirtölu.64 Samkvæmt Beygingarlýsingu
íslensks nútímamáls (BÍN) er avókadó hvorugkynsnafnorð. Eintala og
fleirtala án greinis er avókadó og með greini avókadóið og avókadóin.65
Tökuorðið avókadó hefur borist til Íslands og annarra Evrópulanda
í kjölfar þess að mexíkönsk matargerðarlist varð vinsæl og útbreidd
um víða veröld. Hvort orðið avókadó heldur velli í íslensku skal látið
ósagt, en um þessar mundir togast það á við tökuþýðinguna66 lár-
pera um tilveru sína í málinu.
2.2 Maís
Maís er nytjajurt af grasætt (lat. Zea mays) sem gefur af sér gul-
leit korn. Jurtin er ættuð frá Mið- og Suður-Ameríku en frá örófi
alda hefur maísrækt verið almenn á Antillaeyjum í Karíbahafi, í
Mexíkó og suður eftir álfunni. Korn plöntunnar var mikilvæg fæða
61 ROH.
62 Auglýsing í Vikunni 38 (16)/1976, bls. 8. Tímarit.is http://timarit.is [sótt 9. desember 2018].
63 Brynhildur Björnsdóttir, „Krókódílaperan slær í gegn“, Fréttablaðið, 27. júlí 2018, (Kynningarblað),
bls. 4. Krókódílapera er tökuþýðing úr ensku alligator pear. Hér er um líkingu að ræða.
64 Hafsteinn Hafliðason, „Avókat, avóköt – lárpera, sigurpungur, smjöraldin“, Bændablaðið 29.
janúar 2015, http://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/avokat-avokot-–-larpera-sigurpungur-
smjoraldin/5948/ [sótt 9. desember 2018].
65 BÍN = Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, ritstj.
Kristín Bjarnadóttir, http://bin.arnastofnun.is/forsida/ [sótt 15. desember 2018].
66 Úr þýsku: Laurbirne og Lorbeer-Birne.