Milli mála - 2018, Blaðsíða 165
VARLAM SHALAMOV
Milli mála 10/2018 165
„Þýðir það að þú kunnir ekki heldur ...“
„Það þýðir ekki neitt. Við blekkjum þá í tvo daga og svo –
hverjum er svo sem ekki sama hvað gerist eftir tvo daga?“
„Við blekkjum þá í einn dag og svo verðum við komnir aftur í
vinnuflokkinn á morgun.“
Þrátt fyrir samstillt átak gekk þeim erfiðlega að opna dyrnar,
því hurðin hafði frosið föst en loks tókst það. Á miðju gólfi
smíðaverkstæðisins stóð rauðglóandi járnofn og fimm trésmiðir
stóðu við borð og unnu berhöfðaðir og án yfirhafna. Tvímenningarnir
krupu fyrir framan opna ofnhurðina eins og ofninn væri eldguðinn
sjálfur, einn allra fyrsti guð mannanna. Þeir drógu af sér vettlingana
og teygðu hendurnar í áttina að ylnum en þar sem þeir höfðu misst
alla tilfinningu í höndunum, fundu þeir ekki strax fyrir hitanum.
Andartaki síðar, án þess að standa upp, tóku þeir ofan húfurnar og
hnepptu frá sér jökkunum.
„Hvað viljið þið hér?“ spurði einn smiðurinn kuldalega.
„Við erum smiðir. Við eigum að vinna hér,“ sagði Grígorjev.
„Samkvæmt fyrirmælum Aleksandrs Jevgeníjevítsj,“ flýtti
Potashníkov sér að bæta við.
„Eru það sem sagt þið sem áttuð að fá verkfæri hjá okkur?“
spurði Arnshtrem, roskinn maður sem var að hefla skófluskaft úti í
horni. Hann var sá sem hafði umsjón með verkfærunum.
„Já, það erum við ...“
„Hérna,“ sagði Arnshtrem og virti þá tortrygginn fyrir sér.
„Hér fáið þið tvær axir, sög og skekkitöng. Þið verðið svo að skila
tönginni. Hér er öxin mín. Smíðið á hana skaft.“
Arnshtrem brosti.
„Kvóti dagsins er þrjátíu sköft – þrjátíu alls.“
Grígorjev tók við trékubb sem Arnshtrem rétti honum og fór
að saga í hann. Það heyrðist blásið til hádegisverðar, en Arnshtrem
gerði sig ekki líklegan til að fara í jakkann sinn. Hann stóð og starði
þegjandi á Grígorjev vinna.
„Nú þú,“ sagði hann við Potashníkov.
Potashníkov lagði viðarbút á fjalhögg, tók við öxinni frá
Grígorjev og byrjaði að höggva í hann.
Hinir smiðirnir voru farnir í mat og það voru engir aðrir á
smíðaverkstæðinu en mennirnir þrír.