Milli mála - 2018, Blaðsíða 70
TARTUFFE Í SÖGU OG SAMTÍÐ
70 Milli mála 10/2018
á leiksviðinu ljóslifandi komin persóna sem engum áhorfenda gat
dulist að tilheyrði stétt klerka.22
3. Trú, vald og samfélag í Frakklandi Loðvíks XIV.
Grimmileg trúarbragðastríð geisuðu í Evrópu á 16. öld í kjölfar
siðbótarinnar og þeim linnti ekki í Frakklandi fyrr en árið 1598
þegar lútherskir mótmælendur og kalvínistar fengu leyfi til að iðka
trú sína. Alla 17. öld átti kaþólska kirkjan í innbyrðis deilum sem
hverfðust að miklu leyti um kenningar um mannlegan ásetning
og guðlega náð. Upp úr þessum trúardeilum spruttu tvær öflugar
hreyfingar, jansenistar, sem voru hreintrúarmenn og aðhylltust
kenningar hollenska prestsins Corneliusar Jansen um sáluhjálp fyrir
tilstilli guðlegrar náðar, og jesúítar, sem lögðu meiri áherslu á frelsi
og menntun og þóttu undanlátssamari í trúnni. Kaþólska kirkjan
í Frakklandi háði því baráttu um sálir mannanna, bæði gegn mót-
mælendatrú sem og sértrúarhreyfingum innan eigin raða. Þar sem
prestsmenntun var fremur lítilfjörleg og prestaskólar fáir, brá kirkjan
á það ráð að gefa ungum menntamönnum kost á að stunda fræðistörf
og skriftir innan kirkjunnar án þess að þeir tækju vígslu sem prestar,
gegn því að gerast trúarlegir leiðbeinendur í samfélaginu.
Loðvík XIV. var 28 ára þegar Tartuffe var frumsýndur.
Konungurinn var listhneigður ungur maður sem átti sér ástkonur og
vildi njóta lífsins. Hirðin tók á þessum tíma að skiptast í tvo hópa, þar
sem eldri kynslóðin – með hina valdamiklu móður konungs, Anne
d’Autriche, í broddi fylkingar ásamt eldprestinum Bossuet en bæði
voru þau nátengd fyrrnefndri trúarreglu Hins heilaga sakramentis –
lagði allt kapp á að bæta siðferði þjóðarinnar. Konungurinn sjálfur
og yngri hluti hirðarinnar lögðu meiri áherslu á að njóta lista, halda
veislur, leggja út í byggingarframkvæmdir – Versalir voru byggðir
á tímum Loðvíks XIV. – stríðsrekstur og landvinninga. Þessi and-
stæðu viðhorf endurspegluðust í þjóðfélaginu. Annars vegar áttu
konur af efri stigum þess kost að lifa fjölbreyttu og líflegu menn-
ingarlífi í salarkynnum sínum og eiga sér rödd á þann hátt sem þær
höfðu sjaldan kynnst fyrr og samskipti milli kynjanna einkenndust
22 Georges Couton, „Notice“, bls. 835.