Milli mála - 2018, Blaðsíða 67
GUÐRÚN KRISTINSDÓTTIR-URFALINO
Milli mála 10/2018 67
Þessi gerð leikritsins í fimm þáttum er sú þriðja og sú eina
sem varðveist hefur frá hendi Molières. Verkið sem frumsýnt var í
Versölum í maí 1664 var hins vegar styttra og kom svo við kaunin
á klerkastéttinni að áhrifamenn innan kirkjunnar linntu ekki látum
fyrr en það var bannað.
2. Tartuffe 1664 og 1667
Fyrsta útgáfa leikritsins um Tartuffe (1664) bar heitið Tartuffe
eða hræsnarinn (fr. Tartuffe ou l’Hypocrite) og var skrifað í þremur
þáttum. Lengi var talið að þessir þættir væru þrír fyrstu þættirnir í
endanlegri gerð gamanleiksins (1669) sem er sú sem við þekkjum
í dag, enda er það þannig sem La Grange, stórleikari og ritari leik-
hópsins, greinir frá í skýrslum sínum.11 Í slíkri gerð hefði Tartuffe
staðið uppi sem ótvíræður sigurvegari og augu Orgons hefðu ekki
opnast fyrir tvískinnungi hans. Nýrri rannsóknir hafa sýnt fram á
að þættirnir þrír hafa að öllum líkindum verið fyrri gerðir af fyrsta,
þriðja og fjórða þætti. Samkvæmt þeirri kenningu hefur upphaflega
leikritinu (1664) lokið með því að Tartuffe hefur verið afhjúpaður
en þá verið orðinn lögmætur eigandi hússins og í stöðu til að steypa
Orgon í glötun.12
Þessi sama tilgáta gerir ráð fyrir því að Molière hafi bætt sögu-
þræðinum um ástir heimasætunnar Maríönnu og unnusta hennar,
Valère, inn í verkið á síðari stigum. Atriðið á milli elskendanna er
einmitt meginuppistaðan í öðrum þætti. Rökin sem styðja þessa
tilgátu eru að sögn bókmenntafræðinganna Georges Forestier og
Claudes Bourqui einkum þau að ólíklegt sé að Tartuffe hafi haft hug
á hjónabandi, því óklerklærðir sálusorgarar eins og hann voru alla
jafna skírlífir og gáfu það til kynna með klerklegum búningi.13 Með
þessum sláandi andstæðum milli útlits og framgöngu hefur háðið
á klerkastéttina orðið enn beittara þar sem loddarinn vekur máls á
flegnum barmi þjónustustúlkunnar sem hann segir vekja upp hold-
11 Georges Couton, „Notice“, í Molière, Œuvres complètes I, ritstj. Georges Couton, París, Gallimard,
Bibliothèque de la Pléiade, 1971, 833–888, hér bls. 834.
12 John Cairncross, New Lights on Molière, Genf, Droz, 1956, bls. 1–51. Sjá Georges Forestier og
Claude Bourqui, „Notice“ í Molière, Œuvres complètes II, París, Gallimard, Bibliothèque de la
Pléiade, 2010, bls. 1354–1389, hér bls. 1362.
13 Georges Forestier og Claude Bourqui, „Notice“, bls. 1364.