Milli mála - 2018, Blaðsíða 148
STÖÐVARSTJÓRINN
148 Milli mála 10/2018
auga á stöðvarstjórann, settist hratt upp í vagninn og hrópaði: „Af
stað!“ Stöðvarstjórinn fór ekki á eftir honum. Hann ákvað að halda
heim á póststöðina sína en vildi fyrst, þó ekki væri nema einu sinni,
fá að sjá vesalings Dúnju sína. Í þeim tilgangi sneri hann aftur til
Mínskís tveimur dögum síðar, en herþjónninn sagði honum þurr-
lega að herrann tæki ekki á móti neinum, og stjakaði honum með
þöndu brjósti út úr forstofunni og skellti hurðinni á nefið á honum.
Stöðvarstjórinn stóð lengi og beið – en hvarf síðan á braut.
Að kvöldi þessa sama dags, er hann hafði hlýtt á messu í
Frúarkirkjunni, var stöðvarstjórinn á gangi eftir Lítejnístræti þegar
skrautlegur léttivagn rann fram hjá honum. Stöðvarstjórinn sá að
þar var Mínskí á ferð. Vagninn staðnæmdist beint fyrir framan inn-
ganginn á þriggja hæða húsi og húsarinn hljóp upp tröppurnar. Nú
var ég heppinn, hugsaði stöðvarstjórinn. Hann sneri við og gekk
upp að hlið ekilsins:
– Hver á þessa hesta, félagi? spurði hann, – það er þó ekki
Mínskí?
– Jú, einmitt, svaraði ekillinn, – hvað er þér á höndum?
– Jú, þannig er að húsbóndi þinn fól mér að færa Dúnju sinni
skilaboð en ég er búinn að gleyma hvar hún Dúnja hans býr.
– Hún býr einmitt hérna, á annarri hæð. Þú ert of seinn, félagi,
með skilaboðin þín; hann er hjá henni núna.
– Skiptir engu, svaraði stöðvarstjórinn og var mikið niðri fyrir,
– takk fyrir ábendinguna, en ég verð að standa skil á mínu. Að því
búnu fór hann upp stigann.
Dyrnar voru læstar; hann hringdi, nokkrar sekúndur liðu í
þrúgandi eftirvæntingu. Það skrölti í lykli og dyrunum var lokið
upp.
– Býr hún Avdotja8 Samsonovna hér? spurði hann.
– Já, svaraði ung þjónustustúlka. – Hvað vilt þú henni?
Stöðvarstjórinn svaraði ekki og gekk inn í forstofuna.
– Nei, ekki! hrópaði þjónustustúlkan á eftir honum, – það eru
gestir hjá Avdotju Samsonovnu.
En stöðvarstjórinn skeytti ekki um orð hennar og hélt áfram.
Dimmt var í tveimur fremri herbergjunum, í því þriðja logaði ljós.
8 Avdotja er alþýðleg útgáfa af kvenmannsnafninu Jevdokía, sem er eiginnafn Dúnju.