Milli mála - 2018, Blaðsíða 146
STÖÐVARSTJÓRINN
146 Milli mála 10/2018
liðin hálf klukkustund þegar hann fékk sting í hjartað og varð svo
órólegur að hann réð ekki við sig og fór sjálfur til messunnar. Þegar
hann nálgaðist kirkjuna sá hann að fólk var farið að tínast heim en
Dúnja var hvorki í garðinum né anddyri kirkjunnar. Hann hraðaði
sér inn í kirkjuna: presturinn var á leið niður frá altarinu, djákninn
var að slökkva á kertunum, tvær gamlar konur voru enn að biðjast
fyrir í einu horninu, en Dúnju var hvergi að sjá. Með erfiðismunum
spurði vesalings faðirinn djáknann hvort hún hefði verið í mess-
unni. Djákninn sagði að svo hefði ekki verið. Stöðvarstjórinn fór
heim og vissi hvorki í þennan heim né annan. Hans eina von var
að Dúnja hefði kannski, vegna lausungar æskunnar, fengið þá hug-
mynd að fara að næstu póststöð, þar sem guðmóðir hennar bjó.
Fullur angistar beið hann þess að þríeykið sem flutti hana burt sneri
aftur. Ekillinn hafði enn ekki skilað sér heim. Um kvöldið kom
hann loks, aleinn og drukkinn, með hörmuleg tíðindi: Dúnja hafði
haldið áfram frá næstu stöð með húsaranum.
Þetta reið gamla manninum nánast að fullu; hann lagðist sam-
stundis í rúmið, þar sem ungi svikarinn hafði legið kvöldið áður.
Stöðvarstjórinn áttaði sig nú á því þegar hann fór yfir málsatvik, að
veikindi húsarans höfðu verið uppgerðin ein. Vesalings maðurinn
fékk heiftarlega hitasótt; hann var fluttur til S*** og annar
stöðvarstjóri var skipaður tímabundið í hans stað. Sami læknirinn
og hafði vitjað húsarans annaðist hann einnig. Hann sannfærði
stöðvarstjórann um að ungi maðurinn hefði verið fullkomlega
heilbrigður og að hann hefði strax getið sér til um hans vafasömu
áform, en þagað af hræðslu við svipu hans. Hvort sem Þjóðverjinn
sagði satt eða vildi bara hæla sér af innsæi sínu, róaði hann síður
en svo vesalings sjúklinginn. Stöðvarstjórinn hafði varla náð sér af
veikindunum þegar hann sótti um tveggja mánaða leyfi hjá póst-
meistaranum í S***, og án þess að segja orð um fyrirætlanir sínar við
nokkurn mann, lagði hann fótgangandi af stað á eftir dóttur sinni.
Í pantanabókinni komst hann að því að húsarinn, kafteinn Mínskí,
hafði verið á leið frá Smolensk til Pétursborgar. Ekillinn, sem hafði
ekið honum, sagði frá því að Dúnja hefði grátið alla leiðina, þrátt
fyrir að svo virtist sem hún hefði farið af fúsum og frjálsum vilja.
„Kannski,“ hugsaði stöðvarstjórinn, „kem ég heim með týnda
lambið mitt.“ Í þessum hugleiðingum kom hann til Pétursborgar