Saga - 2019, Blaðsíða 94
inn í lög, mál sem ekki á að vera hægt að ljúka nema með opinberri
refsingu.21 Um þann sem gerist sekur um víg giltu allt aðrar reglur
samkvæmt Grágás. Hann hafði rétt á að lýsa víginu á hendur sér og
greiða ásamt ættingjum sínum bætur fyrir hinn látna, svokallaða
fjörbauga.22
Ný lögbók var sett á Íslandi árið 1281, Jónsbók. Í henni var gerður
greinarmunur á tvenns konar mannvígum, níðingsvígi og öðru vígi.
Sá sem gerðist sekur um níðingsvíg var óbótamaður, þ.e. hann gat
ekki leyst sig frá málinu að fullu með því að greiða fjölskyldu hins
drepna bætur. Níðingsverkið var þó víg eins og önnur víg, því var
lýst, það var opinbert og var því ekki morð. Það hafði hins vegar
aðra stöðu fyrir lögum en hin tegundin og var það oft vegna þess að
stofnanir eins og konungsvald eða kirkja tóku sér einokunarvald á
beitingu refsinga fyrir ofbeldi í ákveðnum málum, eins og í málinu
þegar Páll á Skarði var veginn. Hann hafði verndarbréf konungs og
því varð víg hans ekki bætt að fullu með manngjöldum til fjölskyldu
Páls, heldur þurfti konungur líka að fá bætur eða beita refsingu til
að réttlætinu væri fullnægt. Fyrir önnur víg var unnt að greiða
bætur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og var málinu þá lokið.
Meðal annars varð að lýsa víginu á hendur sér samdægurs innan
héraðs og „ok nefna sik á nafn ok náttastað sinn ok herað þat sem
hann er ór, ok lýsa fyrir frjálsum manni ok fulltíða“.23 Samkvæmt
Jóns bók gilti að ef víglýsing kom fram og var dæmd gild af opinber-
um dómstóli voru erfingjum þess sem drepinn var dæmdar bætur,
sem vegandinn skyldi greiða.24 Í Jónsbók var einnig talað um morð,
líkt og í Grágás, og um slíkt athæfi voru aðrar reglur en um bæði víg
og níðingsverk.25
Miklu máli skiptir að miðstjórnarvald í nútímaskilningi var ekki
til. Konungsvaldi hafði eins og áður segir tekist að koma á þeirri
reglu, líklega á þrettándu öld, að fyrir manndráp skyldi greitt þegn-
gildi og málið tekið til opinbers dómstóls, en lengra náðu afskipti
ríkisvaldsins ekki. Frá fjórtándu öld eru til 13 dæmi um aftökur á
dæmdum morðingjum af hálfu ríkisvaldsins hér á landi fyrir víg eða
árni daníel júlíusson92
21 Jónsbók (Odense: Odense Universitetsforlag 1970), bls. 37.
22 Grágás, bls. 447–459.
23 Jónsbók, bls. 46. Sjá einnig Þórð Björnsson, „Um vígsakir á Íslandi á 14. öld“,
bls. 335‒351.
24 Jónsbók, bls. 46–48.
25 Jónsbók, bls. 46.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 92