Saga - 2019, Blaðsíða 145
jóhanna þ. guðmundsdóttir
Uppboðið í Viðey 1794
Árið 1792 var lagt hald á allar eigur Skúla Magnússonar landfógeta
í Viðey til tryggingar opinberu fé í vörslu hans vegna meintrar
sjóðþurrðar og honum gefinn kostur á að biðjast lausnar frá emb -
ætti. Fyrir því stóð Ólafur Stefánsson stiftamtmaður en honum bar
að hafa eftirlit með embættisfærslum landfógeta. Eftir nokkurt þóf
og deilur við stiftamtmann sagði Skúli sig frá embætti árið eftir
þegar stefndi í að honum yrði vikið frá. Töluvert hefur verið fjallað
um þetta í sögubókum síðustu öldina og heilu ævisögur Skúla
fógeta verið ritaðar.1 Ein er þó sú heimild sem fengið hefur svo litla
athygli að undravert má teljast. Það er uppboðið sjálft sem haldið
var í fardögum 1794 í Viðey þar sem stór hluti af eigum Skúla var
seldur hæstbjóðanda.2 Í uppboðsskránni, sem varðveitt er í safni
rentukammers í Þjóðskjalasafni Íslands, eru skráðir 519 tölusettir
munir, nafn hæstbjóðanda tilgreint og verðið sem viðkomandi hlut -
ur var sleginn á. Hér er ætlunin að rýna aðeins í þessa uppboðs skrá.
Fyrst verða munirnir sjálfir skoðaðir en þeir geta dregið fram ágætis
mynd af heimilishaldi og búrekstri í Viðey í lok átjándu aldar. Þá
verða helstu kaupendur á uppboðinu einnig kynntir til sögunnar
sem er ekki síður áhugavert. Hverjir mættu á uppboð þar sem boðn -
ar voru upp eigur eins af virtustu embættismönnum í landinu til
margra ára?
Saga LVII:1 (2019), bls. 143–151.
1 Jón Jónsson, Skúli Magnússon landfógeti (Reykjavík: Sigurður Kristjánsson 1911);
Páll Eggert Ólason og Þorkell Jóhannesson, Saga Íslendinga VI. Tímabilið 1701–
1770 (Reykjavík: Menntamálaráð og Þjóðvinafélag 1943), bls. 431–489; Þorkell
Jóhannesson, Saga Íslendinga VII. Tímabilið 1770–1830. Upplýsingaröld (Reykjavík:
Menntamálaráð og Þjóðvinafélag 1950), bls. 82–101; Lýður Björnsson, Skúli fógeti.
Menn í öndvegi 2 (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1966); Lýður Björnsson, Hann
á afmæli hann Skúli (Kópavogur: höfundur 2013); Þórunn Jarla Valdimarsdóttir,
Skúli fógeti: Faðir Reykjavíkur. Saga frá átjándu öld (Reykjavík: JPV útgáfa 2018).
2 ÞÍ. (Þjóðskjalasafn Íslands) Rentukammer (Rtk.) B13/24–1. Isl. Journ. 9, nr. 1222.
Uppboð 2. júní 1794 (liggur nú með Isl. Journ. 9, nr. 1719).
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, johanna@skjalasafn.is
Ú R S K J A L A S K Á P N U M
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 143