Saga - 2019, Blaðsíða 175
Grænland hið forna
Þar sem um enga meiri háttar textílfundi er að ræða á Íslandi er
freistandi að leita til Grænlands til samanburðar. Bæði löndin voru
háð verslun við útlönd og álykta má að tískustraumar frá sömu
löndum hafi borist til þeirra beggja og haft áhrif á klæðaburð fólks.
Elstu textílfundir frá Grænlandi eru frá fjórtándu öld. Best þekktar
eru flíkur sem Poul Nørland gróf upp í kirkjugarðinum á Herjólfs -
nesi á árunum milli 1921 og 1932.18 Þessar flíkur hafa margar hverjar
varðveist fullkomlega í sífreranum sem myndaðist eftir að hitastigið
fór að lækka á þrettándu öld og leiddi til litlu ísaldar.19
Fundirnir frá Herjólfsnesi bera vitni um að sumt fólk var jarðað
í sínum eigin fötum á meðan aðrir voru sveipaðir í vaðmál, líkt og
nefnt var í samhengi við íslenskar aðstæður hér að framan.20 Fund -
irnir í Herjólfsnesi sýna einnig að munur var á félagslegri stöðu
hinna látnu. Sum líkin voru fullklædd í heilan fatnað, meðan önnur
voru vafin í klæði sem sett höfðu verið saman úr gömlum fataleif -
um, sokkum og hettum sem höfðu verið skornar sundur til að búa
til líkklæði. Í einni gröfinni höfðu ermar verið skornar af og notaðar
í hlífar á fótleggjum. Í tveimur tilfellum hafði hinn látni verið lagður
í kistu. Kistan hlýtur að hafa verið stöðutákn í jafn trjálausu landi og
Grænland var.21 Jafnvel sjálfur biskupinn að Görðum (nú Igaliku)
hafði verið jarðsettur kistulaus.22
Allar flíkurnar frá Herjólfsnesi virðast vera í samræmi við stíl og
snið sem ríkjandi var á Norðurlöndum.23 Það er ef til vill of djarft að
álykta að Íslendingar hafi notað sams konar klæði við greftrun en
það er mjög líklegt.24 Takmarkaðar myndheimildir sem við höfum
lík skal ekki nakið niður grafa 173
18 Kristján Eldjárn, „Inngangsorð“. Poul Nørlund, Fornar byggðir á hjara heims.
Lýsingar frá miðaldabyggðum á Grænlandi. Þýð. Kristján Eldjárn (Reykjavik:
Ísafoldarprentsmiðja 1972), bls. 9.
19 Else Østergård, Woven into the Earth. Textiles from Norse Greenland (Aarhus:
Aarhus University Press 2009), bls. 27.
20 Lín (hör) var líklega ekki fáanlegt á Grænlandi á þessum tíma. Vaðmál var
heimaofið úr bandi sem spunnið var úr ull af grænlenskum fjárstofni eins og
Else Østergård hefur sýnt, sbr. Woven into the Earth.
21 Else Østergård, Woven into the Earth, bls. 27.
22 Poul Nørlund, Fornar byggðir á hjara veraldar, bls. 44.
23 Sama heimild, bls. 98–121.
24 Ástæða er samt til að nefna að Ragnheiður Gló Gylfadóttir hefur gagnrýnt
túlkun Else Østergård og Pouls Nørlund varðandi flíkurnar frá Herjólfsnesi.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:22 Page 173