Helga Law Journal - 01.01.2021, Síða 12
Helga Law Journal Vol. 1, 2021 Pétur Dam Leifsson
1312
að.2 Ekki hefur áður verið fjallað um viðlíka efni á íslensku.3 Við þessa
söguskoðun verður jafnframt að hafa í huga að á síðari tímum hafa komið fram
gagnrýnni nálganir á söguna.4 Þessari gagnrýni verður leitast við að halda einnig
til haga í greininni en ekki er þó meðvituð ætlun mín að rekja þessa sögu undir
tilteknu kenningarsjónarhorni. Ber ég sem kennari ekki síst þá von í brjósti að
lesendur kunni í gegnum slíkt greinarkorn að öðlast frekari innsýn í sögu
þjóðaréttarins og sumir fái jafnvel áhuga á því að kafa dýpra í efnið en áður. En
þar sem því sleppir að fólk muni í öllu falli hafa af lestrinum nokkra skemmtun.
En um allt slíkt verður víst hver að dæma um fyrir sig og við höldum þá nú af
stað til móts við söguna.
2 Hugmyndir um einhvers konar alþjóðalög fyrir
tíma þjóðaréttar
Ekki er unnt að staðhæfa hvenær fyrst sér stað í siðmenningu mannkyns vísi að
því sem við getum á einhvern hátt samsamað því sem við nú þekkjum sem
þjóðarétt. Þó er vitað að leiðtogar fornþjóða, til dæmis Súmerar sem uppi voru
um 4000 fyrir Krist, leituðust við að gera samninga sín á milli um ýmis efni. Elsti
heillegi samningur af þessu tagi er talinn hafa verið gerður á milli Forn-Egypta
og Hittíta á 13. öld fyrir Kristsburð.5 Á dögum Forn-Grikkja á 4. öld fyrir Krist
er svo lagður hornsteinn að vestrænni menningu og til verða kunnuglegar
hugmyndir um réttlæti og sammannlegt siðferði. Þar fór fremstur í flokki
Aristóteles (385–323 fyrir Krist) sem skilgreindi manninn sem samfélagsveru í
eðli sínu.6 Af því leiddu síðan frekari hugmyndir um tiltekinn óbreytanlegan
eðlisrétt varðandi helstu gildi í samskiptum manna sem voru síðan þróaðar frekar
áfram af Stóumönnum á 3. öld fyrir Krist og bárust svo þaðan til hugsuða
Rómverja á dögum Cicero sem var uppi á öldinni fyrir Kristsburð.7
2 Alltaf má deila um hvaða einstaklinga á að leggja áherslu á í slíkri sögu. Segja má að flestir helstu
fræðimenn í sögu þjóðaréttar hafi þar valið sig nokkuð sjálfir en aðra ber á góma með hliðsjón af
áherslum höfundar. Ljóst er að sögusviðið hér er einkum Evrópa og nágrenni þaðan sem þjóðaréttur
á ótvírætt rætur sínar að rekja en merkileg saga átti sér þó einnig stað í Asíu, síðar Suður-Ameríku og
loks Afríku, sem hér verður ekki gerð skil.
3 Sjá þó grein mína og Helga Áss Grétarssonar „Húgó Grótíus — lærifaðir þjóðaréttar — æviágrip
og helstu hugmyndir”, í Björg Thorarensen o.fl. (ritstj.), Páll Sigurðsson sjötugur 16. ágúst 2014 (Codex
2014) bls. 295–307.
4 Þá til dæmis með áherslu á þróun þjóðaréttar sem afleiðingu af stigvaxandi uppgangi hugmynda af
meiði frjálslyndis og einstaklingshyggju í hinum vestræna heimi eða þá sem afurð sem orðið hefur til
í órofa tengslum við nýlendustefnu Evrópumanna á fyrri öldum. Sjá til dæmis Martti Koskenniemi,
From Apology to Utopia (Cambridge University Press 2005) einkum bls. 71–155 og Antony Anghie,
Imperialism, Sovereignty and the Making of International Law (Cambridge University Press 2004) einkum
bls. 13–48.
5 Sjá ágætt yfirlit um þetta o.fl. í Stephen C. Neff, Justice Among Nations: A History of Internaional Law
(Harvard University Press 2014) bls. 13–14 og 36.
6 Bryan Magee, Saga heimspekinnar (Mál og menning 1998) bls. 39.
7 Gunnar Skirbekk og Nils Gilje, Heimspekisaga (Háskólaútgáfan 2008) bls. 139.
Segja má að í réttarskipan Rómarréttar hafi orðið til fyrsti vísir að þeim
samleik hugmyndanna sem æ síðan hefur einkennt þróun þjóðaréttar. Annars
vegar gerðu hinir praktísku Rómverjar í réttarkerfi sínu ráð fyrir hinum
óbreytanlega eðlisrétti (ius naturale) sem leiddi af lögmálum náttúrunnar og hafði
verið litið til sem hinna æðstu laga allt frá dögum Forn-Grikkja og Stóumanna.8
Hins vegar gerðu Rómverjar sér grein fyrir því að þær grundvallarreglur fjölluðu
þó ekki um öll þau hagnýtu álitaefni sem máli skiptu í sífellt margbrotnara
samfélagi og þess vegna varð einnig að viðurkenna aðrar reglur sem leiddu af
sérstöku eðli mannsins í náttúrunni og stóðu skör lægra en eðlisréttur. Þessar
„manngerðu“ reglur til fyllingar hinum óumbreytanlega eðlisrétti skiptust síðan
upp í ýmsa flokka í regluverki Rómverja. En þær reglur sem töldust hafa almennt
gildi að lágmarki, þar á meðal í lögskiptum Rómverja við annarra þjóða fólk,
nefndust ius gentium.9 Rómverjar höfðu því engar hugmyndir um þjóðarétt í
nútímaskilningi en í samskiptum við annarra þjóða menn gilti eðlisréttur og þar
sem honum sleppti reglur af meiði ius gentium. Má segja að þessar tvær af helstu
réttarheimildum í Rómarrétti, eðlisréttur og ius gentium, hafi síðar í breyttri mynd
lagt grunninn að því sem urðu hugmyndir um eðlisrétt og vildarrétt í þjóðarétti.
Það sem þó setti strik í reikninginn er að Rómarréttur féll í gleymskunnar dá á
hinum myrku ármiðöldum í Evrópu en varð svo að segja enduruppgötvaður sem
fyrirmynd frá og með 11. öld.10
Í Evrópu hámiðalda var það annars öðru fremur þrennt sem hafði mest vægi
í samfélagi álfunnar, a.m.k. í því samhengi sem hér skiptir máli: Í fyrsta lagi var
það Páfavaldið í Vatíkaninu í Róm. Í öðru lagi var það Hið heilaga rómverska
ríki keisarans sem hafði sérstaka stöðu á meðal konunga í álfunni. Í þriðja lagi var
það síðan hinn óbreytanlegi eðlisréttur sem allir töldust vera bundnir af,
konungar og geistlegir menn sem og aðrir, en aftur á móti var enn ekkert
réttarkerfi til sem fjallaði að öðru leyti um samskipti ríkja sem slíkra.11 Fylgdi því
mikið vald á þessum tímum að kunna góð skil á eðlisrétti og sú þekking lá einkum
fyrir hjá reglum kirkjunnar á 13. öld með Dóminíkanann Tómas frá Akvínó
(1225–1274) fremstan í flokki. Sem trúmaður, en jafnframt lærður í fræðum
Aristótelesar um manninn, byggði Tómas á því að það grundvallarlögmál
eðlisréttar að göfga dyggðir en forðast hið illa væri mönnum eðlislægt. En til að
draga réttar ályktanir í því samhengi þyrfti þó að virkja mannlega skynsemi til að
greina lögmálin sem hvorki lytu guðlegum vilja né væru skráð í hjörtu manna.
8 Hugmyndin um tvískiptingu laganna á milli eðlisréttar og mannasetninga sem stæðu skör lægra var
þó einnig til svo snemma sem hjá Forn-Grikkjum og Stóumönnum, sbr. Neff (n 5) bls. 42.
9 Slíkar reglur sem giltu aðeins í innbyrðis lögskiptum Rómverja nefndust ius civile, en ius gentium reglur
höfðu almennara gildi og þar á meðal í lögskiptum við útlendinga, sbr. Paul du Plessis, Roman Law
(Oxford University Press 2010) bls. 88.
10 O.F. Robinson, T.D. Fergus og W.M. Gordon, European Legal History: Sources and Institutions
(Butterworths 2000) bls. 23–25.
11 Neff (n 5) bls. 52. Erfitt er að útskýra stöðu keisarans og páfaveldisins á þessum tíma en líking felst
e.t.v. í því að keisarinn hafi þá sumpartinn verið líkt og Evrópusambandið og páfaveldið sem
Sameinuðu þjóðirnar í nútíma.