Helga Law Journal - 01.01.2021, Blaðsíða 39
Helga Law Journal Vol. 1, 2021 Pétur Dam Leifsson
4140
Greina má þó viss blæbrigði í röðum vildarréttarmanna 19. aldar á sviði
þjóðaréttar eftir áherslum. Margir lögðu áherslu á þýðingu empirískrar greiningar
á framkvæmd og afstöðu ríkja sem grunn að reglum, þ.e. á myndun
þjóðréttarvenja. Aðrir lögðu áherslu á sameiginlegan vilja ríkja í formi
samkomulags þeirra en þjóðréttarsamningar urðu æ fleiri og viðameiri á 19. öld.
En nokkrir lögðu áherslu á að slíkar bindandi reglur yrðu til ef ríki undirgengjust
þær og þá jafnvel einhliða. Út frá þessum ólíku áherslum risu mismunandi skólar
um þýðingu ýmissa álitaefna, svo sem um muninn á þjóðréttarvenju og annars
konar vana í samskiptum ríkja, um mun á réttarskapandi og réttarskipandi
þjóðréttarsamningum og áherslur í sambandi við tvíeðli þjóðaréttar og
landsréttar. Áherslan á ríkin og fullveldi þeirra og rétt þeirra til að viðhalda sér og
á tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar eru raunar þættir sem aðgreina sýn vildarréttar
á þjóðarétt borið saman við eðlisrétt, auk þess sem samþykki ríkisins verður
grundvöllur allra gildra réttarheimilda sem það telst bundið af. Afneitun á
eðlisrétti eins og varð áberandi á síðari hluta 19. aldar var þó alls ekki það sem
þeir Suárez, Grótíus og Vattel, er lögðu grunninn að þýðingu mannasetninga fyrir
þjóðarétt, höfðu í huga. Hvað varðar aldarfarið þá er líka rétt að hafa það hugfast
að á 19. öld sjást einnig fyrstu merki þess að þjóðaréttur sé að losna úr viðjum
þess að teljast því sem næst alfarið evrópskur þar sem fræðimenn frá Suður-
Ameríku voru þá byrjaðir að gera sig gildandi en enn var þess að bíða fram á 20.
öld að ríki í öðrum heimsálfum gerðu sig almennt mjög gildandi á vettvangi
þjóðaréttarins. En 19. öldin með öllum sínum framförum var einnig öldin þar
sem nýlendustefna ríkja Vesturlanda náði hámarki og fræðimennmenn gerðu þá
gjarnan enn blygðunarlaust greinarmun á svokölluðum siðuðum ríkjum og
villiþjóðum.119 Ekki er hér ráðrúm til þess að fjalla um marga merka fræðimenn
sem voru merkisberar vildarréttar í þjóðarétti á 19. öld. Verður hér látið við það
eitt sitja að minnast á tvo fræðimenn sem áttu ríkan þátt í að móta nýtt réttarsvið
á þeim tíma, þ.e. nútímarétt varðandi lög í stríði á sviði þjóðaréttarins. Þetta eru
annars vegar þýski Bandaríkjamaðurinn Francis Lieber en hins vegar rússneski
heimsborgarinn F.F. Martens.
8 Tveir frumkvöðlar þjóðaréttar um stríð og frið á
19. öld — Francis Lieber og F.F. Martens
Á 19. öld voru sjónarmið vildarréttar orðin nær allsráðandi í fræðilegri umræðu
um þjóðarétt og fyrri tíðar hugmyndir í anda eðlisréttar um réttlátt stríð áttu undir
högg að sækja, en lausn deilumála og vopnuð átök til að leysa milliríkjadeilur voru
eftir sem áður óleyst vandamál. Áður en sérstakt framtak Svisslendingsins Henry
Dunant kom til skjalanna og leiddi til gerðar fyrstu Genfarsamningana um lög í
stríði 1863 og tilurðar Alþjóða Rauða krossins 1864 hafði Bandaríkjamaður af
þýskum ættum, Farncis Lieber (1798–1872), áður orðið frumkvöðull þess á síðari
tímum að setja fram á skipulegan hátt reglur um lög í stríði (jus in bello). Nokkru
119 Anghie (n 4) bls. 35.
síðar á 19. öldinni var það síðan framlag rússnesks diplómats og fræðimanns, sem
ættaður var ofan af Eystrasalti, Fyodor Fyodorovich Martens (1845–1909), sem
lagði enn frekari grunn að slíkum reglum á þessu sviði þjóðaréttar, sem og
varðandi það hvernig sporna mætti við vopnuðum átökum ríkja með regluverki
(jus ad bellum). F.F. Martens var að segja má leiðandi í því að skipulagðar voru og
haldnar miklar friðarráðstefnur ríkja í Haag árin 1899 og 1907.
Francis Lieber fæddist í Berlín og gekk ungur til liðs við prússneska herinn í
Napóleonsstríðunum og barðist meðal annars í orrustunni við Waterloo þar sem
hann hlaut alvarleg sár. Upp frá þessari reynslu fékk hann mikinn áhuga á
sameiningu þýsku ríkjanna og því hvernig gera mætti vopnuð átök mannúðlegri.
Lenti Lieber upp á kannt við stjórnvöld í Prússlandi vegna aktífisma og var
ítrekað fangelsaður og 1826 flúði hann til Bretlands og fluttist svo þaðan til
Boston í Bandaríkjunum árið 1827. Akademískur ferill Lieber nær loks flugi þar
í landi árið 1835 þegar hann hlaut stöðu við Háskólann í Suður-Karólínu en árið
1860 verður hann svo prófessor í stjórnmálafræði við Columbia-háskólann í New
York og átti síðan þátt í að setja lagadeild þess kunna skóla á laggirnar. Í
þrælastríðinu 1861–1865 gegndi Lieber jafnframt ráðgjafarstörfum fyrir
alríkisstjórnina í Washington sem sérfræðingur um álitaefni sem lutu að lögum í
stríði.120 Á þeirri vegferð varð svo til þekktasta framlag hans til þjóðaréttar eða
Viðmiðunarreglur Liebers um lög í stríði (Lieber Code) frá 1863, en þar var um að
ræða samsafn af reglum um lög í stríði byggt á greiningu hans á því sem var þá
talið gildandi venjuréttur eða voru nýmæli sem herir Bandaríkjanna
(norðurríkjanna) töldu sig bundna af í átökunum við uppreisnarheri
suðurríkjanna í borgarastríðinu.121
Framangreindar viðmiðunarreglur Liebers um lög í stríði þóttu hafa slíka
þýðingu að Lincoln forseti Bandaríkjanna gaf þær út sem tilskipun nr. 100, 24.
apríl 1863. Reglurnar fólu meðal annars í sér reglur um herlög, meðferð opinberra
og einkaeigna óvinarins, liðhlaupa, stríðsfanga, gísla, uppreisnarmenn og
vopnahlé. Voru þetta fyrstu reglur af því tagi sem her setti sér með svo
skipulegum hætti og var gjarnan litið til upp frá því af öðrum ríkjum. Þar koma
fram reglur sem enn hafa grundvallarþýðingu í gildandi þjóðarétti um lög í stríði,
svo sem sú grundvallarregla að tækum aðferðum til þess að skaða óvininn í stríði
séu þó viss takmörk sett og þá einkum út frá gildum hernaðarhagsmunum og
mannúð. Þá setti Lieber fram viðmið um stríðsglæpi ef helstu lögum í stríði væri
ekki fylgt og um það hvernig bæri þá að meðhöndla slík mál. Einnig reglur er
bönnuðu pyndingar á stríðsföngum, til að afla upplýsinga og um skyldu til
verndar menningarverðmæta í stríði, svo nokkuð sé nefnt.122 En viðlíka viðmið
unnu sér síðan sess í fyrsta Genfarsáttmálanum sama ár og í Haagsamningunum
1899 og 1907.
120 Silja Vöneky, „Francis Lieber (1798–1872)“ í Bardo Fassbender og Anne Peters (ritstj.), The Oxford
Handbook of The History of International Law (Oxford University Press) bls. 1137–1138.
121 Sama heimild bls. 1139.
122 Sama heimild bls. 1139–1140.