Helga Law Journal - 01.01.2021, Side 29
Helga Law Journal Vol. 1, 2021 Pétur Dam Leifsson
3130
sem síðar varð vildarréttur en þeir sem tóku sér stöðu á þeim kvarða nálægt miðju
eða þar í kring voru þá í reynd helstu Grótíusarmennirnir.
Tilgreina mætti ýmsa fræðimenn á öllu þessu rófi eftir daga Grótíusar en hér
verður látið við það sitja að fjalla um fjóra menn sem endurspegla nokkuð vel
þessa flóru og höfðu áhrif á þróun þjóðaréttar. Skal þar fyrstan telja Samuel von
Pufendorf, sem var helsti talsmaður hreinna eðlisréttarkenninga um þjóðarétt, og
leit raunar sérstaklega til greininga Grótíusar á eðlisrétti, en dró aðrar ályktanir en
margir aðrir af öðru í verkum hans. Í öðru lagi fjölfræðinginn Christian Wolff,
sem var mikill greinandi eðlisréttar í anda Grótíusar sjálfs, en lagði einnig mjög
út frá hugmyndum Grótíusar um ius gentium voluntarium. Í þriðja lagi landa
Grótíusar, Cornelius van Bynkershoek, sem hafði að segja má pragmatíska
nálgun á verk Grótíusar. Loks í fjórða lagi Emerich de Vattel sem leit sérstaklega
upp til Wolff en færði þjóðarétt í raun enn frekar í átt til þess samleiks eðlisréttar
og vildarréttar sem síðar varð viðtekinn. Það sem annars einkenndi þetta tímabil
eftir miðja 17. öld og fram yfir 18. öld var tímabil upplýsingarinnar þar sem hinir
klassísku skólaspekingar leystu miðaldahugsun af hólmi, einkum í norðanverðri
Evrópu. Menn töldu nú ófullnægjandi að reiða sig á óhlutlæga hugmyndafræði
eða trúarbrögð og vildu stunda vísindalega lögfræði þar sem almennt var reynt
að sætta mótsagnir eðlisréttar og einhvers konar ius gentium.88
Samuel von Pufendorf (1632–1694) lagði áherslu á grundvallarþýðingu
eðlisréttar sem einu undirstöðu þjóðaréttar sem slíks. Gæta ber þó að því að
eðlisréttarmenn eins og Pufendorf voru ekki svo skyni skroppnir að halda því
fram að engar aðrar reglur gætu haft þýðingu í samskiptum ríkja heldur var
staðhæfing þeirra sú að almennar reglur þjóðaréttar yrðu ekki réttilega leiddar
fram nema sem afleiða af eðlisrétti. Ríki gætu þannig t.d. gert það er kallast nú
réttarskipandi samninga en sem mættu þá ekki fara í bága við eðlisrétt.
Prestssonurinn Pufendorf var frá Saxlandi og nam fyrst guðfræði en svo
lögfræði við Háskólana í Leipzig og Jena, en þar var einnig annar merkur
samtíðarmaður hans, stærðfræðingurinn heimskunni G. W. Leibniz. Pufendorf
náði skjótum frama bæði sem fræðimaður og embættismaður og varð kunnur af
verkum sínum í lifanda lífi. Sem ungur maður fékk hann tækifæri til að vera
barnakennari hjá sænska sendiherranum í Kaupmannahöfn en lenti þá í varðhaldi
í átta mánuði þegar í odda skarst með Skandinavíuríkjunum tveimur. Eftir að
Pufendorf sneri þaðan heim að nýju gaf hann árið 1660 út ritið Elements of
Universal Jurisprudence og varð sama ár prófessor í túlkunarfræðum (philology) og
þjóðarétti við Háskólann í Heidelberg. Tengsl hans við Svíþjóð leiddu svo til þess
að hann færði sig árið 1670 aftur um set yfir til Háskólans í Malmö í Svíþjóð þar
sem hann einblíndi á eðlisrétt og þjóðarétt og skrifaði sitt kunnasta verk árið
1672. Árið 1677 var Pudendorf fenginn til að flytja frá Malmö til Stokkhólms til
að taka við embætti sagnaritara (historiographer) Svíakonungs, en árið 1688
88 Koskenniemi (n 4) bls. 106–108.
yfirgaf hann loks Svíþjóð og tók þá við viðlíka embætti við hirðina í Brandenborg
í Prússlandi.89
Hvað varðar þjóðarétt þá leit Pufendorf til húmanískra áherslna Grótíusar
og til Rómarréttar og byggði á þeim í tímamótaverki sínu frá 1672 Um grundvöll
eðlisréttar og þjóðaréttar (The Law of Nature and Nations) en vinsæl styttri útgáfa kom
einnig út og nefndist Um borgaralegar skyldur manna (On Duty of Man and Citizen).
Verk Pufendorf lituðust einnig af samtíð hans er markaðist einkum af stöðu mála
í Evrópu eftir þrjátíu ára stríðið og friðargerðina í Westfalen 1645. Framangreint
verk og hugmyndir Pufendorf sækja einnig í smiðju Hobbes hvað það varðar að
sýn hans er sú að þjóðaréttur sé í reynd aðeins afleiddur eðlisréttur heimfærður
yfir á ríki og milliríkjasamskipti m.t.t. röklögmála er þar hljóta að gilda en hann
taldi menn þó friðsama í eðli sínu í anda Aristótelesar.90 Pufendorf leit svo á að
ríki væru frjáls, jafnstæð, en þyrftu reglu í samskiptum sínum líkt og samfélög.
Ríki hefðu grundvallarrétt til að viðhalda sér og hefðu hagsmuni af því að halda
loforð sín á milli og skapa traust.91
Útfærsla Pufendorf við það að greina og heimfæra þessi röklögmál yfir á
þjóðarétt er svo að öðru leyti að segja má einkum empirísk, þ.e. byggð á greiningu
reynsluraka. Ein frumsetningin væri sú að manninum væri ekki gefið að greina
vilja Guðs nema í gegnum raunheiminn og reynslurök. En það sem þá blasti við
að mati Pufendorf væri að maðurinn væri einkum félagsvera og sjálf mennskan
sem stuðla bæri að væri ótvírætt háð þessu og annað leiddi einkum af þeirri
skyldu. Maðurinn væri því háður því að lifa friðsamlega í samfélagi við aðra menn
og sama gilti um ríki og samskipti þeirra en til þess þyrfti tæki á borð við
lagareglur og stofnanir. Grunnstoð í þessu samhengi væri ríkið sem gæti líkt og
einstaklingur verið sjálfstæður aðili og borið réttindi og skyldur í samfélagi
ríkjanna sem hefðu almennt meira vægi en samskipti einstaklinga. Pufendorf
gerði mun á þeim grundvallarréttindum og skyldum sem af þessu leiddi og þeim
hagsmunum sem ríki kysu síðan að ráða til lykta í samningum og hann taldi standa
skör lægra og ekki vera eiginlegan þjóðarétt í sama skilningi og það sem leiddi af
eðlisrétti.92 En þar fyrir utan gætu venjubundin samskipti ríkja heldur ekki lagt
grunn að almennum þjóðarétti sem einhvers konar ígildi samninga. Þannig væri
að mati Pufendorf engin stoð fyrir almennum reglum í samskiptum ríkja sem ekki
helguðust beint eða óbeint af eðlisrétti og vísaði Pufendorf þá einnig til þess að
hið klassíska hugtak Rómarréttar ius gentium hefði alls ekki falið í sér reglur í
samskiptum ríkja heldur aðeins einstaklinga.93 Út frá framangreindu leiddi
Pufendorf síðan fram ítarlegar og áhrifamiklar hugmyndir sínar um þjóðarétt af
meiði eðlisréttar, þ.e. reglur um ríkið sem þjóðréttaraðila, um fullveldi ríkja, eðli
89 Knud Haakonssen, „Samuel Pufendorf (1632–1694)“ í Bardo Fassbender og Anne Peters (ritstj.),
The Oxford Handbook of The History of International Law (Oxford University Press 2012) bls. 1102.
90 Robinson, Fergus og Gordon (n 10) bls. 218.
91 Koskenniemi (n 4) bls. 90–91.
92 Knud Haakonssen, „Samuel Pufendorf (1632–1694)“ í Bardo Fassbender og Anne Peters (ritstj.),
The Oxford Handbook of The History of International Law (Oxford University Press 2012) bls. 1102–1104.
93 Neff (n 5) bls.175–176.