Andvari - 01.01.2013, Síða 19
ANDVARI
VILHJÁLMUR ÞÓR
17
Vilhjálmur Þór tók saman yfirlit um helstu verkefni sín í ríkisstjórn-
inni í áramótagrein í ársbyrjun 1943. Þar sendir hann Norðurlandaþjóð-
unum kveðjur íslendinga og kveður íslendinga vilja vera með í hópi
þeirra að ófriði loknum. Hann ræðir um samskiptin við herliðið og við
stjórnvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir íslendinga treysta
á sanngirni Bandaríkjamanna sem hafi lofað að selja okkur nauðsynjar.
Hann fjallar um verðbólguna, atvinnuástandið og dýrtíðina og gerir
grein fyrir verðlagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar, eftirliti og verðlækk-
unum. Sérstaklega þakkar hann stjórn Félags kjötverslana í Reykjavík
fyrir aðild þeirra. Hann ræðir um erfiða stöðu hraðfrystihúsanna og
togaranna, en hvetur eindregið til þess að menn viðurkenni þau skilyrði
sem ófriðurinn setji siglingum togaranna með afla á markað.
Vilhjálmur Þór kom að umræðum og afgreiðslu allmargra mála á
Alþingi meðan hann gegndi ráðherrastörfum. Meðal mála sem hann
flutti eða tók þátt í umræðum um voru þessi: Verðlagsmál, dómnefnd
í verðlagsmálum, dýrtíðarráðstafanir, fjárlög, samflot skipa, eftirlit
með skipum, flugvellir, flugskýli, fólksflutningar, flugsamgöngur, olíu-
geymar, síldarsöltun, síldarverksmiðja, síldarmjöl, niðursuða, mat á
beitu, mjólkursölumál, kjötmat, kjötverð, landbúnaðarvísitala, loðdýra-
rækt, bændaskóli, áburðarverksmiðja, jarðhitasvæði, veðurfregnir, ný-
smíðar fiskiskipa, vátryggingar, hagtölur um sjávarútveg, raforkuveitur,
áfengislög, slysamál, barnaspítali, sjúkrahús á Akureyri, talsímaþjón-
usta, póstsamband við Ameríku, Sameinuðu þjóðirnar, bannsvæði
herstjórnarinnar, eignakaup af setuliðinu, endurbygging Ölfusárbrúar,
samgöngur og vegamál, og loks skal hér nefna umræður um samband
Islands og Danmerkur.
Meðal verkefna Vilhjálms í ríkisstjórninni sem reyndust sögulegur
árangur má nefna almennan viðskiptasamning, bestukjarasamning,
við Bandaríkjamenn sem gerður var 27. ágúst 1943, afhendingu
Reykjavíkurflugvallar til íslenskra yfirvalda 12. október 1944 og undir-
búning að þátttöku íslands í samþykkt um alþjóðaflugmál 7. desember
1944, en stórmerkur loftferðasamningur íslands og Bandaríkja Norður-
Ameríku var síðan gerður á þessum grundvelli 27. janúar 1945.
Sumarið 1945 hófst farþegaflug aftur til og frá íslandi og mótuð var
íslensk flugumferðarstjórn á mjög víðáttumiklu svæði yfir, umhverfis
og út frá landinu. Asamt samningnum um greiðslur fyrir fiskútflutning
í stríðinu, sem síðar getur, urðu þessir samningar í raun ómetanlegur
grundvöllur síðari þróunar í samfélagi íslendinga.