Andvari - 01.01.2013, Síða 25
ANDVARI
VILHJÁLMUR ÞÓR
23
Á þremur árum náði kaupfélagið undir stjórn hans valdi á skuldunum
og rétti við.
Árið 1928 var Mjólkursamlag KEA á Akureyri stofnað, en með
því var brotið í blað framleiðslumála, iðnaðar og matvælagerðar á
Norðurlandi. Mjólkursamlagið hafði mikil áhrif til hagsbóta jafnt fyrir
framleiðendur sem neytendur í Eyjafirði. Þurfti talsvert á að leggja að
sannfæra bændur um að minnka sauðfjárrækt en auka mjólkurfram-
leiðslu á þessum tíma. Það var fært í frásögur að ungi kaupfélagsstjórinn
tók þátt í verkamannavinnunni til að hraða byggingu mjólkursamlags-
ins þegar tankarnir voru dregnir frá höfninni og upp í hálfbyggt húsið.
Á sömu árum hóf KEA stuðning við útgerð og fiskvinnslu í héraðinu,
beitti sér fyrir margháttuðum umbótum, bættum lendingarskilyrðum
og verkunaraðstöðu. Vilhjálmur tryggði að KEA kom strax að rekstri
frystihúsa í upphafi þeirrar tækni hér. Eitt sér eða í samlögum við aðra
keypti félagið eða byggði hús til fiskmóttöku og frystingar á Akureyri,
Dalvík, Grenivík, í Hrísey, Siglufirði og á Svalbarðseyri. Og KEA lagði
meira að segja fram fé og umsjón til vegagerðar í héraðinu.
Á árunum fyrir 1930 lét kaupfélagið reisa í miðbæ Akureyrar eitt
myndarlegasta og vandaðasta verslunarhús sem þá var til í landinu.
Það var tekið í notkun árið 1930 og þar var um árabil aðalverslun og
aðsetur skrifstofu og yfirstjórnar KEÁ. Vilhjálmur var stórhuga í þessu
öllu, og frá því var sagt að bankastjóri fyrir sunnan hafði spurt hann
þegar lánafyrirgreiðsla vegna hússins var rædd: „Hvað ætlið þið að gera
við svona stórt hús utan Reykjavíkur?“ Hafði Vilhjálmur þá enn hert á
róðri sínum.
I gilbrekkunni ofan við stórhýsið voru mörg fyrirtæki og deildir
KEA, svo sem sendingamiðstöð, kornvöruhús, kaffibrennsla, ketilhús,
smjörlíkisgerð, efnagerð, kjötvinnsla og mjólkursamlag. Fimm árum
síðar var annað stórhýsi reist við Hafnarstræti á Akureyri, en þar voru
ýmsar deildir félagsins til húsa, brauðgerð, mjólkurbúð, kjötbúð, lyfja-
búð, veitingastofa og fleira. Sápuverksmiðjan Sjöfn var stofnuð 1933.
Sama ár var elsti hluti Hótels KEA reistur. Kjötiðnaður efldist á vegum
félagsins og niðursuða matvæla. Árið 1935 hóf KEA skiparekstur til
vöruflutninga þegar skipið Snæfell var keypt og tekið til nota. Þá stofn-
aði Vilhjálmur Utgerðarfélag KEA sem lengi var í rekstri. Almennt
fóru Akureyringar að tala um „kaupfélagsgil“ þar sem reyndar hét
Grófargil og gatan Kaupvangsstræti.
Frá því var sagt að meðan stórhýsi KEA var í byggingu hafði einn