Andvari - 01.01.2013, Síða 45
andvari
VILHJÁLMUR ÞÓR
43
sem ríkt hafði að gengisfellingin sem leiddi af aðgerðum viðreisnar-
stjórnarinnar 22. febrúar 1960 nam allt frá 30 % til 57 %, allt eftir því
hvaða svið og geira efnahagslífsins um var að ræða.
Vilhjálmur Þór tók ýmis verkefni að sér meðfram starfi. Áður en
hann kom aftur til opinberra starfa sat hann um skeið í blaðstjórn
Tímans. Hann var fulltrúi íslands hjá Sameinuðu þjóðunum 1953 og
aftur 1954. Að loknu starfi við Seðlabanka íslands starfaði hann um
tveggja ára skeið í Washington sem stjórnarmaður í Alþjóðabankanum
fyrir hönd Norðurlandanna. Hann kom þar til starfa 1. nóvember 1964
og lét af störfum réttum tveimur árum síðar, 1966. Þau hjónin fluttust
1965 til Bandaríkjanna og bjuggu þar til ársins 1969. Á þeim tíma
vann Vilhjálmur áfram við nokkur verkefni fyrir þróunarlönd á vegum
Alþjóðabankans.
Um skeið voru þeir næstu nágrannar við Hofsvallagötu Vilhjálmur
og Jónas Jónsson frá Hriflu. Sagt var að stundum mætti sjá þá í hróka-
samræðum um sameiginleg hugðarefni yfir grindverkið milli lóðanna.
Alþjóðabankinn er klasi fimm alþjóðlegra fjármálastofnana og
hefur aðalaðsetur í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Bankinn
var stofnaður 27. september 1945 á grundvelli ákvarðana á alþjóða-
fundinum í Brettonskógum í New Hampshire í Bandaríkjunum, en þar
var ráðslagað um nýtt alþjóðafjármálakerfi og gjaldeyrismál sem við
skyldu taka að lokinni heimsstyrjöldinni. Alþjóðabankinn starfar við
ráðgjöf, lánveitingar og þróunaraðstoð víða um lönd, einkum í þriðja
heiminum, og leggur áherslu á málefni fátæktar, menntun, atvinnuvegi
og þróun í stjórnkerfi ríkja.
Á tíma Vilhjálms Þór kom Alþjóðabankinn að málum um tuttugu
ríkja, mest í Áfríku og Asíu en einnig í Mið- og Suður-Ameríku,
og er þess meðal annars að minnast að annar íslendingur, Jónas H.
Haralz hagfræðingur, starfaði á þessum tíma fyrir Alþjóðabankann í
Venezúela. Meðal markverðra verkefna var stíflugerð fyrir virkjun í
Nígeríu, fjármögnun háskólarekstrar á Filippseyjum, vegagerð í Perú,
efnahags- og fjármálaúttektir og ráðgjöf í Brasilíu, Pakistan, Venezúela
og víðar og vinna við breytingar á lánskjörum bankans.
Frá því er að segja að Vilhjálmur Þór var áhugasamur frímúrari og
valdist til æðstu trúnaðarstarfa í þeim félagsskap. Hann var meðal fyrstu
manna á Akureyri til að ganga í félagið, 1927, og fyrsti forseti stúk-
unnar Rúnar á Akureyri en hún tók til starfa árið 1932. Við hernámið 9.
apríl 1940 rofnuðu félagstengsl við Danmörku, en íslenskir frímúrarar