Andvari - 01.01.2013, Side 70
68
PÁLL BJARNASON
ANDVARI
Auk bragarháttarins vekja samsettar orðmyndir eftirtekt: mjúkhlýr vindur,
hinn blíðlyndi, lífstárin (regnið), gullfagrar vatnsperlur (tár).
Með bréfi til Finns 7. sept. 1825 fylgdi erfiljóð Bjarna um Benedikt J.
Gröndal sem lést um sumarið. Bjarni lét skína í hógværð og kallaði það
„lítinn kveðling“: „Þó hann sé ei honum verðugur, er hann af heilum huga
gjör, og þýðir svo mikið sem eg hefi lagt mitt til, gjöri aðrir sama og betur,
sem margir geta.-------Set eg til þinnar yfirvegunar hvört ei vildir setja í
Sagnablöðin að hann hafi verið fyrsti endurnýjari betri skáldskaparsmekks
hér í landi, með útleggingu sinni á Musteri mannorðsins og formálanum fyrir
henni. Þetta ruddi veg fyrir útleggingu sr. Jóns Þorlákssonar á Miltons töpuðu
Paradís.“ (BThBréf 1:166) Finnur birti kvæðið, en sleppti því sem Bjarni stakk
upp á að fylgdi með um merkilegt brautryðjandaverk Benedikts.29 í kvæðinu
er aðeins rætt um Benedikt sem skáld og Bjarni hugsar sér að Jón Þorláksson
fagni honum fyrir handan. í upphafi kvæðisins er vikið að langvarandi veik-
indum Benedikts:
Áður frá mærum meiði
mjúksterkir hljómuðu söngvar
fuglsins er gól fyrri
fagurt í lundi Braga.
Nú gjörist hljótt í hreiðri,
horfinn er næturgalinn!
Sakna menn hans þó ei syngi
sextán hann fyrir árum.
Bjarni skrifar Finni í mars 1826: „Lítinn kveðling hefi eg orkt eftir madm.
Sivertsen [Rannveigu Filippusdóttur] í Hafnarfirði sem riddari Sivertsen
kannski mun sýna þér og mér þækti gaman að fá þitt videtur um, ideen, held
eg, kannske af sjálfselsku - að sé original í skáldskap.“ (BThBréf 1:167) Ekki
verður þess vart að Bjarna hafi borist viðbrögð frá Finni og ekki birtist kvæð-
ið á prenti meðan Bjarni lifði. Þó er hér á ferð eitt af merkustu erfiljóðum
hans sem hann áleit réttilega að byggðist á frumlegri hugmynd (BThLjóðmæli
1:137):
Óttist ekki elli,
þér ísalands meyjar,
þó fagra hýðið ið hvíta
hrokkni og fölni,
og brúna- logið í -lampa
ljósunum daprist
og verði rósir vanga
að visnuðum liljum.