Andvari - 01.01.2013, Page 86
84
PÉTUR PÉTURSSON
ANDVARI
Sterkur persónuleiki
Segja má að Eiríkur hafi tilheyrt þeirri kynslóð sem kom íslandi inn í nú-
tímann, þ.e. aldamótakynslóðinni svonefndu, kynslóð sem tókst á við verk-
efnin sem fyrir lágu og gerði það á þann hátt að það varð lærdómsríkt fyrir
þá sem á eftir komu og lifðu nýja tíma. Ahugamál hans og viðfangsefni voru
tengd framförum á íslandi í víðum skilningi, hvort sem það voru atvinnu-
mál, stjórnmál eða menningarmál. Eiríkur var málafylgjumaður sem munaði
um og hann var áberandi í umræðu um þau mál sem hann lét til sín taka
hverju sinni. Tengslanet hans lá víða heima á Fróni og erlendis. Sambönd hans
í enskum menntaheimi gera framlag hans og áhrif sérstaklega áhugaverð í
þessu sambandi því þar var trúar- og kirkjumálum skipað með mjög öðrum
hætti en á Islandi.
Guðfræðin er að mörgu leyti aldarspegill á menningu, menntir og stjórn-
mál hvers tíma. Túlkun Biblíunnar og þýðing á hin ýmsu tungumál er lykil-
atriði í þessu sambandi. Þetta ritsafn þarf að túlka fyrir hverri nýrri kynslóð
og texta þess þarf að endurnýja með reglubundnu millibili til viðhalds kristnu
safnaðarlífi og til þess að boðskapur þess nái til fólks. Eiríkur kom mjög við
sögu biblíuþýðinga og ritskýringar. Hann var mörgum sem kynntust honum
minnistæður og hefur átt auðvelt með að kynnast fólki og skapa traust. Hann
var kröfuharður í garð vina sinna og samstarfsfólks og krafðist einlægni og
heiðarleika í samskiptum enda bjó hann sjálfur yfir þessum eiginleikum í
ríkum mæli. Brást hann hart við ef hann varð var við ódrengskap og skirrð-
ist þá ekki við að segja mönnum til syndanna hvort sem var í ræðu, riti eða
bréflega. Ljóst er að hann var mikill skapmaður og má í því sambandi vísa til
vitnisburðar samtímamanna sem kynntust honum náið.3
Vinsældir Eiríks auðvelduðu honum að koma hinum fjölþættu áhugamál-
um sínum á framfæri, en hann eignaðist einnig mótstöðumenn og suma all-
harða og nokkrir nánir vinir hans slitu samskiptum við hann. Orsakir þess að
Eiríkur er minnistæður tímamótamaður má að vissu marki rekja til persónu
hans og óhætt er að tala um persónutöfra, karisma, í því sambandi. Birtist
þetta ekki síst í stjórnmálunum þar sem stuðningurinn við Jón Sigurðsson
og stefnu hans var Eiríki hjartans mál. Þjóðfrelsismál bar hann mjög fyrir
brjósti alla ævi og var það honum svo mikið hitamál að segja má að hann
hafi skipt mönnum og málefnum í tvennt. Annað hvort voru menn með eða á
móti - og í því tilfelli með eða á móti vini hans og leiðtoga Jóni Sigurðssyni,
forseta Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags, og stefnu
hans.
Eftir að Eiríkur lauk prófi við Prestaskólann í Reykjavík var hann í nokk-
ur ár ritari landfógeta. Hann kunni að umgangast valdsmenn og áhrifafólk
á hinum ýmsu sviðum og hafði bæði kjark og lagni til að notfæra það sér