Andvari - 01.01.2013, Page 138
136
SVEINN YNGVI EGILSSON
ANDVARI
ísk og upphafin. Meðal danskra ljóðskálda sem ortu þannig um hana var
Christian Winther (1796—1896).15
Þórir Óskarsson hefur bent á að náttúruljóð íslenskra skálda um miðja
19. öld minni um margt á þessa menningartísku og vitnar til ljóða Jóns
Thoroddsens: „Hér hleypur smalastúlkan léttfætt um leiti og börð, lautir og
fjallaskörð og allt einkennist af blíðu, öryggi og fegurð. Jafnvel „gnípu og
gilja tröll“ hafa vinarödd. Kvæðin verða þannig talin góð dæmi um áhrif þess
anga borgaralegrar rómantíkur í dönskum og þýskum bókmenntum sem
kenndur er við Biedermeier.“16 Þórir sýnir fram á þessi áhrif með dæmum úr
ljóðum fleiri skálda og þar á meðal Steingríms Thorsteinssonar.17 Ég ætla að
fylgja ábendingu Þóris eftir með því að tengja þessa borgaralegu náttúrusýn
við þá hjarðljóðahefð sem hér er til umræðu.
Á Danmerkurárum sínum orti Steingrímur kvæði sem heitir Skógarsjónin
og minnir á þau skógarmálverk sem vinsæl voru í danskri samtímalist.18
Ljóðmælandi gengur út í skóg á fögrum vordegi og allt er kyrrt og hljótt.
Fagur fuglasöngur dregur hann æ innar í skógarþykknið uns hann kemur
að bjartri og spegilsléttri tjörn. Við honum blasir „blessuð sjón“, því þar „Sat
blómleg mey í sakleysinu frjáls, / Með gulan stráhatt skreyttan bláum bönd-
um, / í björtum hjúp með nakin brjóst og háls.“ (159)19 Ljóðmælandinn fylg-
ist með henni um stund úr skógarfylgsni sínu - „í laufarunni þéttum fékk eg
færi / Á fegurð horfa“ (159) - og lesandinn hugsar með sér að hér sé komið
ágætis dæmi um karlagláp og kynóra frá 19. öldinni. En málið er flóknara því
að speglunin í ljóðinu er tvöföld. Meyjan speglast í skógartjörninni - „Svo
ung og fríð, sem vorsins drotning væri, / í votri skuggsjá spegluð engilhrein“
(159) - en ljóðmælandanum finnst hún líka spegla hann sjálfan og upphafna
vordrauma hans:
Úr hennar bjarta svip mér sýndist skína
Það sálarlíf, er fylti mína þrá,
Sem systurlega dreymdi drauma mína
Og djörfum huga lyfti jörðu frá. (160)
Hún er skáld eins og hann: „Því innra sálin orti vorsins kvæði / í elskudraum
á lífsins blómatíð.“ (160) Hann fyllist ákafri löngun til að tjá henni ást sína:
Því elsku vor var eins í sálu minni,
Þar allir knappar sprungu fram i blóm,
Alt lífið skein í morgunsælu sinni
Og söng með þúsund radda kærleiks hljóm. (160)
En þá heyrist mannamál í skóginum sem truflar meyna og „I yndis fáti
hrædd og létt sem hindin / Hún hljóp og falst í dimmum skógar geim“. (161)