Andvari - 01.01.2013, Page 142
140
SVEINN YNGVI EGILSSON
ANDVARI
Eg reið um sumaraftan einn
Á eyðilegri heiði;
Þá styttist leiðin löng og ströng,
Því ljúfan heyrði’ eg svanasöng,
Já, svanasöng á heiði. (135)
Hinn þreytti ferðalangur finnur fró í svanasöngnum sem hann heyrir þó að
enginn fugl sé sjáanlegur. í ljóðinu segir um sönginn að hann „Að eyrum bar
sem englahljóm, / í einverunnar helgidóm" (135) og því lýkur með þessum
orðum:
Svo undurblítt eg aldrei hef
Af ómi töfrazt neinum;
1 vökudraum eg veg minn reið
Og vissi’ ei, hvernig tíminn leið
Við svanasöng á heiði. (135)
Ferðalangurinn lifir eins og í vökudraumi og söngurinn hefur gætt líf hans
töfrum. Mörg íslandsljóð Steingríms eru eins konar ævintýri á gönguför að
þessu leyti. Ljóðmælandinn hverfur á vit náttúrunnar, finnur sér laut eða
lund og dvelur þar um stund og nýtur návistarinnar við dýr og jurtir. Svo
snýr hann aftur til byggða, endurnærður á sál og líkama. Hjarðljóðaferlið
birtist í því að maðurinn finnur tímabundið athvarf í náttúrunni og hverfur
svo aftur til síns heima, til siðmenningarinnar. Þetta er í hnotskurn reynsla
nútímamannsins af náttúrunni. Það er þrá bæjarbúans eftir hinu uppruna-
lega og fagra, eftir samhljómi við umhverfið og lífsfyllingu. Steingrímur og
önnur 19. aldar skáld urðu fyrst til að formgera þessa reynslu og lýsa henni
á ljóðrænan hátt, en hún styðst við hefð hjarðljóðanna sem gengur út frá
þessum grundvallarmun á menningu og náttúru, á bæ og sveit. Samfélag
mannanna er ófullkomið og vanagangur hversdagsins deyfir tilfinningu ein-
staklingsins fyrir því undri sem lífið er. Náttúran býður honum aftur á móti
upp á samhljóm og einskæra fegurð og kemur honum í samband við sjálfan
sig. Um leið verður náttúran kraftbirting sannleikans, hins fagra og góða
lífs sem lifað skal. Að því leyti er hún ekki flóttaleið frá vandamálum mein-
gallaðs heims heldur býður hún upp á valkost við hann eða leið út úr þeim
ógöngum sem siðmenningin er komin í. En mynd náttúrunnar mótast þó af
þeim sögulegu skilyrðum sem eru uppi á 19. öld og hún speglar hugmyndir
manna um einlægni, kyrrð og samhljóm eins og áður er rakið. Sú mynd er
ekki bundin ytra umhverfi heldur getur hún verið huglæg.
Þessi huglægni birtist með ýmsum hætti í ljóðum Steingríms og þar á
meðal í því einkenni sem kallað hefur verið innra landslag (e. interior land-