Andvari - 01.01.2013, Page 174
172
GUNNAR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
hann var hvorki bleyða, liðhlaupi né svikari. Nei, hann var negldur á krossinn. Hann
hafði haldið velli til hinstu stundar; hann hafði staðið við orð sín. Á andartakinu,
þegar hann hrópaði ELI ELI og missti meðvitund, hafði Freistingin gripið hann brot
úr sekúndu og leitt hann afvega. Gleðistundirnar, hjónaböndin og börnin voru lygar;
örvasa, úrkynjuðu öldungarnir, sem hrópuðu að honum bleyða, liðhlaupi, svikari, fóru
með lygar. Állt - allt var hugarórar og blekkingar frá Djöflinum. Lærisveinar hans voru
á lífi og í góðu gengi. Þeir höfðu farið yfir höf og lönd og voru að boða Fagnaðarerindið.
Allt hafði farið sem skyldi, dýrð sé Guði!
Hann rak upp siguróp: ÞAÐ ER FULLKOMNAÐ!
Og engu var líkara en hann hefði sagt: Allt er að hefjast. (Bls. 492-493).
Á krossinum er Kristur að gefa upp öndina þegar draumsýnin kemur til hans.
Hvor möguleikinn er það sem Kazantzakis velur, hvorum megin stendur
hann? Hér fer Sorbas ekki með sigur af hólmi heldur Kristur dymbilvikunnar.
Allt er að hefjast. Kazantzakis hefur tekið afstöðu en ekki án þess að gera upp
við sjálfan sig. Síðasta freistingin er uppgjör skáldsins við eigin hugarheim
sem hafði mótast af eldi og blóði, af þjáningum og angist, af leit og aftur leit,
af spurningum á spurningar ofan. Síðasta freistingin er í þessum skilningi
stórvirki og þeim mun einkennilegra að einmitt bók af þessari stærðargráðu
skyldi hafa valdið þeirri hneykslan sem raun ber vitni.
Allt er að hefjast eru lokaorð sögunnar. Krossinn er upphafspunkturinn.
Kannski var það kjarni málsins, hér er einn kallaður til að sýna mennskuna
til fulls, teyga hinn beiska kaleik í botn, hér er ekkert algeymi lengur, hér er
raunveruleiki lífsins, þar sem tveir möguleikar blasa við: að gefast upp eða
svipta hulunni af þeirri mennsku sem maðurinn þráir.