Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1964, Page 59
GRÆNLENZKI landnemaflotinn
61
heitna landsins. Breiðfirðingar hafa a. m. k. vitað, hvað það gilti
að róa undir straum, eins og þeir kalla það. Hafi aftur á móti ein-
hverjir kosið að snúa við, var sá möguleiki aðeins fyrir hendi á
þeim skipum, sem auðveldlega varð róið.
En hafi þessu verið öfugt farið og leiðangursmenn hreppt storm
og stórsjó, er hæpið að gizka á, hvor hafi betur af borið farma-
báturinn eða knörrinn, einkum eftir að komið var í námunda við
Grænland og þá hafi þar verið ís. Farmabáturinn hefur einnig í
þessu tilviki þá kosti, að honum má róa til þess að bjarga sér frá
ís og einnig í gegnum hann, ef ísinn er vikakimóttur. Knerrinum
varð aftur á móti ekki róið að ráði, sízt í andviðri, og mjög erfitt
hefur verið að hagræða för hans, eftir að hann var kominn í ís,
jafnvel þótt ísinn hafi verið vökóttur.
Þessar vangaveltur leiða vitanlega ekki til lausnar á því viðfangs-
efni, sem hér er verið að fást við, í þeim felast einungis bendingar
um tilbrigðin, sem hent gátu Grænlandsfarana, og hvernig þeir
voru búnir undir að taka þeim.
XII.
Hvers konar skip voru í landnámsflotanum, sem fór úr Breiða-
firði áleiðis til Grænlands sumarið 986?
Svarið við þessari spurningu getur ekki byggzt á öðru en líkum.
Þær, sem mér virðast skipta höfuðmáli, hef ég dregið saman í þess-
ari ritgerð og reynt að færa rök að gildi þeirra:
Langskip komu ekki til greina sökum þess, að þau tíðkuðust ekki
á Islandi.
Haffæra byrðinga áttu íslendingar ekki hér við land á söguöld.
Ferjur munu hafa verið með því lagi, að ótrúlegt er, að þeim hafi
verið ætlað um úthaf. í Islendingasögum er þeirra hvergi getið
nema helzt sem flutningaskipa, aðallega innfjarða að sumarlagi.
Skútur kynnu að hafa verið í Grænlandsleiðangrinum, en naum-
ast margar, því að þær voru ekki algengar á söguöld. I Breiðafirði
er aðeins getið um tvær á þessu tímabili, en enga í Borgarfirði.
Knerrir hafa vafalaust verið í oftnefndum landnámsflota, en eng-
an veginn einfarið eða að meiri hluta. Knarraeign Breiðfirðinga
og Borgfirðinga hefur ekki verið svo mikil, að þeir hafi mátt
missa af mörgum í senn. Kaupgeta leiðangursmanna hefur að öll-