Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Blaðsíða 1
>OR MAGNUSSON
BÁTKUMLIÐ 1 VATNSDAL
í PATREKSFIRÐI
Eitt sérkennilegasta og athyglisverðasta fornaldarkuml, sem kom-
ið hefur í ljós á seinni árum hér á landi, fannst í byrjun júnímánaðar
1964 í Vatnsdal í Patreksfirði. Vatnsdalur er nú eyðibýli og stendur
sunnan við fjörðinn beint á móti kauptúninu. Óbyggðir smádalir
eru hvor sínum megin Vatnsdals, en næsti bær fyrir innan er Kvíg-
indisdalur, og að utanverðu er Örlygshöfn næsta sveit.
Tildrög fundarins voru þau, að annar eigandi Vatnsdals, Páll Guð-
finnsson byggingameistari á Patreksfirði, hugðist gera kartöflu-
garð á ávölum sandhól, um 4—500 m frá bænum, niðri á sjávarbökk-
um rétt innan við Vatnsdalsána, sem rennur með túninu í Vatns-
dal. Hafði Páll fengið jarðýtu til að jafna út hólinn og gera þar
garðstæði. Er verkið var langt komið, varð allmikil grjótdyngja fyrir
jarðýtunni, sem jarðýtustjórinn, Magnús Ólafsson frá Vesturbotni í
Patreksfirði, hugðist ýta ofan fyrir bakkann. Er ýtan hafði farið
tvisvar gegnum hrúguna, varð Magnús var beinaleifa í ýtufarinu,
og þar eð hann þóttist sjá, að þarna væri um að ræða mannabein,
hætti hann verkinu, og gerði Páll þjóðminjaverði viðvart. Urðu menn
þarna varir rónagla úr bát, og einnig töldu þeir sig finna spjót
eða leifar af öðru vopni, og benti þetta til þess, að þarna væri um
forvitnilegan fund að ræða. Eiga hlutaðeigendur skyldar þakkir
fyrir, hve fljótt þeir brugðu við, er í ljós kom, hvað var hér á seyði,
enda greiddi Páll á allan hátt mjög vel fyrir allri rannsókninni.
Hinn 8. júní fór ég vestur á Patreksf jörð til að athuga nánar um
þennan fund. Kumlið hafði verið í ávölum, grasi grónum sandhól,
sem Reiðholt hét, en nú var hóllinn með öllu sléttaður út, og var
svæ'ðið ein breiða af sjávarsandi, blöndnum skeljasandi. Eins og
víðar við sunnanverðan Patreksf jörð er þarna mikið um fínan skelja-
sand í fjörunni, sem fýkur upp á land í þurrkum og hvassviðri, og
hefur hóllinn greinilega myndazt af slíku áfoki, Hóllinn hefur þó